Hin árlega Lokahátíð Stóru Upplestrarkeppninnar í grunnskólunum hér á Snæfellsnesi verður haldin miðvikudagskvöldið 10. mars n.k, kl. 20.00 í Grundarfjarðarkirkju.

 

Um árabil hefur keppni þessi verið haldin á landsvísu og hefur þann tilgang að efla og örva vandaðan og áheyrilegan upplestur grunnskólanenda á bundnu sem óbundnu máli.  Slíkt er og eðli málsins samkvæmt enda í stafni fyrirferðarmikil markmið aðalnámskrár skólastigsins varðandi vöxt og viðgang móðurmálskunnáttu nemenda.

Það eru félagssamtökin „Raddir“ með tilstuðlan ýmissa aðila, s.s. Kennaraháskólans, Mjólkusamsölunnar og bókaútgáfa sem annast samræmingu undirbúnings og framkvæmd keppninnar í héruðum landsins, m.a. leggja þau til dómara, annast útgáfu upplestrarefnis o.mfl.

Hér heima í héraði annast Félags- og skólaþjónusta Snæfellinga í samvinnu við grunnskólana undirbúning og framkvæmd keppninnar.  Það eru nemendur 7. bekkja skólanna sem keppa innbyrðis þar sem valdir eru 3 úr hverjum skóla til þátttöku á Lokahátíðinni sem að þessu sinni fer fram í Grundarfjarðarkirkju miðvikudagskvöldið 10.mars og hefst stundvíslega kl. 20.00.

Auk stuðnings Mjólkusamlagsins í Búðardal sem styrkir keppnina m.a. með drykkjarföngum fyrir keppendur og gesti á Lokahátíðinni, þá styrkir Brauðgerð Ólafsvíkur, nú sem hin fyrri ár, hátíðina með ýmis konar sætindum og bakkelsi fyrir gesti og keppendur á hátíðinni.  Síðast en ekki síst styrkir Sparisjóður Ólafsvíkur keppnina hér heima í héraði nú sem endanær með peningaverðlaunum til sigurvegaranna í 1., 2. og 3. sæti úrslitakeppninnar.

Allir eru velkomnir á Lokahátíðina sem fram fer eins og áður segir, í Grundarfjarðarkirkju miðvikudagskvöldið 10. mars og hefst kl. 20.00.

Félags- og skólaþjónusta Snæfellinga og grunnskólarnir á Snæfellsnesi