Dagana 2. til 4. maí síðastliðinn sótti Lúðrasveit Tónlistaskóla Grundarfjarðar  landsmót Sambands Íslenskra Skólalúðrasveita (SÍSL) í Grindavík. Landsmót lúðrasveita hefur verið haldið í 45 ár en fyrsta landsmótið var á Seltjarnarnesi árið 1969.  SÍSL hélt utan um mótið ásamt heimamönnum í Grindavík en allar lúðrasveitir landsins eru aðliar að SÍSL.  Lúðrasveitum er skipt upp eftir aldri og getu því og var þetta mót fyrir yngsta aldursflokkinn, svokallaðar A-sveitir.   Þær eru skipaðar börnum á aldrinum 8 til 12 ára. 

Á landsmótinu voru um 350 krakkar víðs vegar af landinu.  Var þeim skipt í fjórar lúðrasveitir auk trommusveitar.  Þetta fyrirkomulag er virkilega skemmtilegt þar sem krakkarnir fá að spila með stórri lúðrasveit og kynnast fleiri krökkum frá mörgum stöðum af landinu.  Eflaust hafa mörg vinasambönd skotið rótum um helgina.   Sveitirnar fimm æfðu hver í sínu lagi frá föstudagskvöldi til sunnudags.  Á sunnudeginum voru svo haldnir lokatónleikar fyrir fullu íþróttahúsi Grindavíkur þar sem afrakstur helgarinnar var fluttur. 
Lúðrasveit Tónlistarskóla Grundarfjarðar er skipuð 12 krökkum á aldrinum 9-12 ára og sóttu allir mótið.  Á landsmótum SÍSL eru aðeins gefin ein verðlaun, hegðunarverðlaun fyrir sérstaklega góða framkomu, kurteisi og frágang.  Skemst er frá því að segja að hegðunarverðlaunin í ár féllu í skaut Grundfirðinga.