Málþing unglinga í Grundarfirði var haldið í samkomuhúsinu, 9. apríl síðastliðinn. Þar voru saman komnir unglingar úr fjórum elstu bekkjum í Grunnskóla Grundarfjarðar, fjarnámsnemar (16-20 ára), ásamt öðru áhugafólki um málefni unglinga. Til fundarins var boðað af forvarnarhópi bæjarfélagsins, þar sem saman kemur fólk úr öllum áttum er hefur það sameiginlega markmið að vilja vinna að forvarnarstörfum og málefnum unga fólksins okkar.  

Málþing unglinga í Grundarfirði var haldið í samkomuhúsinu, 9. apríl síðastliðinn. Þar voru saman komnir unglingar úr fjórum elstu bekkjum í Grunnskóla Grundarfjarðar, fjarnámsnemar (á aldrinum 16-20), ásamt öðru áhugafólki um málefni unglinga. Til fundarins var boðað af forvarnarhópi bæjarfélagsins, þar sem saman kemur fólk úr öllum áttum er hefur það sameiginlega markmið að vilja vinna að forvarnarstörfum og málefnum unga fólksins okkar.

Fundurinn tókst ákaflega vel og voru aðilar sammála um að málflutningur framsögumanna hefði verið vel undirbúinn og fróðlegur. Þeir sem stigu í pontu sem fulltrúar sinna árganga/hópa fluttu okkur hugmyndir sinna félaga um hvað þeir vilja sjá í okkar ágæta bæ, ásamt því að fara yfir það sem þeim þykir hafa verið vel gert. Ánægjulegt var að heyra hvað unglingarnir eru ánægðir með þá aðstöðu sem búið er að skapa í félagsmiðstöðinni Eden og voru flestir sáttir við það framboð sem er af félagsstarfi í bæjarfélaginu, en þótti þó skorta á opnunartíma félagsmiðstöðvar.

Sambærilegt málþing var síðast haldið í Grundarfirði, fyrir um það bil fjórum árum og voru allir á því að margt hefði unnist síðan þá og rétt væri að halda málþing sem þetta ekki sjaldnar en á tveggja ára fresti.

Fundarstjóri var Eðvarð Vilhjálmsson.

Málþingið hófst á því að flutt var erindi frá félagsmiðstöðinni Eden, en fulltrúar þaðan fóru fyrr í mánuðinum á landsþing unglinga. Það voru þau Atli Freyr Friðriksson og Ingibjörg Bergvinsdóttir úr 10. bekk, sem fóru á þingið í fylgd Sólrúnar Guðjónsdóttur sem er leiðbeinandi í Grunnskólanum og hefur umsjón með félagsstarfinu þar. Flutti Atli Freyr ferðasöguna á málþinginu. Fulltrúar frá þremur elstu bekkjum í Grunnskóla Grundarfjarðar fluttu því næst ræður hvert af öðru og að lokum tók til máls fulltrúi fjarnámsnemenda í Grundarfirði. Ræður frummælenda eru birtar hér í heilu lagi á eftir, en til máls tóku sem hér segir:

Atli Freyr Friðriksson, fyrir Eden.

Guðjón Örn Guðjónsson, fyrir 8. bekk.

Sædís Alda Karlsdóttir, fyrir 9. bekk.

Kristófer Eðvarðsson, fyrir 10 bekk.

Hildur Margrét Rikarðsdóttir, fyrir fjarnám.

Að ræðum loknum tók Gísli Ólafsson, bæjarfulltrúi, til máls og þakkaði unglingunum fyrir fróðleg og skemmtileg erindi. Flutti hann þeim jafnframt kveðju bæjarstjóra og forseta bæjarstjórnar, en þær áttu ekki kost á að sitja fundinn, vegna fundarsetu í Reykjavík. Almennar umræður fór því næst fram.

 

Ræða frá félagsmiðstöðinni Eden:

Ræðumaður: Atli Freyr Friðriksson

Klukkan hálf sjö að morgni laugardagsins 5. apríl sl. lögðum við, Atli, Ingibjörg og Sólrún af stað til Reykjavíkur, í rigningu og roki, til að sitja Landsþing ungs fólks. 

Við vorum hálf kvíðin þar sem við vissum lítið út í hvað við vorum að fara og um hvað átti að ræða.  Dagskráin hljóðaði upp á kynningu, umræðuhópa og tillögugerð sem skila ætti til ráðamanna þjóðarinnar.

Við komum tímanlega að félagsmiðstöðinni Miðbergi, þar sem þingið skyldi haldið, og litum aðeins á húsakynnin áður en þingið hófst.  Það var ekki laust við dálitla öfund hjá okkur þegar við sáum hversu glæsileg félagsmiðstöðin var, margir salir og meira að segja á tveimur hæðum. 

Klukkan 9 hófst svo þingið, með kynningu á þeim verkefnum sem framundan voru og tilgangi þingsins.  Félagsmiðstöðvum þeim sem eru aðilar að SAMFÉS gafst kostur á að senda tvo fulltrúa á þingið, en við vorum þau einu sem fórum af Nesinu.  Að lokinni kynningu var okkur skipt niður í hópa og var þess gætt að í hverjum hópi væri einn fulltrúi frá Miðbergi, sem stjórnaði umræðum, einn fulltrúi af höfuðborgarsvæðinu og svo fulltrúar hinna ýmsu félagsmiðstöðva landsins.  Að sjálfsögðu vorum við sett í sitthvorn hópinn, svo við hefðum meiri möguleika á að kynnast öðrum unglingum.

Hóparnir ræddu um forvarnir ýmiskonar og voru flestir sammála um að vel væri staðið að þeim hvað varðaði eiturlyf, tóbak og alnæmi.  Ósamræmi í aldurslöggjöf var einnig rætt og var hópurinn sammála því að það þyrfti að vera meira samræmi í henni.  Hvenær erum við fullorðin og hvenær ekki?  Við eum sjálfráða 18 ára, en megum ekki fara á vínveitingastað, né kaupa áfengi.  Við erum tekin í fullorðinna manna tölu 14 ára, en erum samt ennþá börn.  Við byrjum að borga skatt af launum okkar 16 ára, en megum ekki ráðstafa tekjunum fyrr en 18, og þar fram eftir götunum.  Við erum ekki að segja að við viljum kaupa brennivín 14 eða 16 eða jafnvel 18, við viljum bara sjá eitthvað samræmi í öllu þessu aldursdæmi.

Annað sem brann mjög á vörum allra hópa var skortur á góðri kynfræðslu í skólum.  Með almennri kynfræðslu erum við að tala um fræðslu um aðra kynsjúkdóma en alnæmi, kynningu á helstu getnaðarvörnum og almennri umræðu um kynlíf, með öllu því sem við á.  Það hefur mjög oft verið láta nægja að segja að maður geti orðið óléttur eða fengið kynsjúkdóm ef maður byrjar að sofa hjá of snemma, en hlutirnir ekki útskýrðir nánar.  Reyndar kom fram hjá krökkunum frá Akureyri að þessari fræðslu væri mjög vel sinnt þar og vissu þau meira að segja hvernig hettan lítur út.  Hvað er hettan???

Að loknum formlegum umræðum fórum fulltrúarnir að spjalla saman og bera saman félagsmiðstöðvar sínar og þá rann nú öfundin okkar, sem fyrr er getið, fljótt af okkur.  Við vorum fljót að komast að því að við erum mjög vel stödd hér í Grundarfirði, eigum sjónvarp, videó, diskókúlu, billjardborð, fótboltaspil og þokkalegar græjur, svo fátt eitt sé talið.  Því miður eru til þó nokkrar félagsmiðstöðvar sem telja sig vel settar þar sem þær hafa úr að moða þaki yfir höfuðið, sófasetti og nokkrum stólum.  Auðvitað vildum við hafa aðstöðu til myndlistar, ljósmyndunar, stuttmyndagerðar ofl.ofl.ofl., en erum bara nokkuð sátt við stöðu okkar í dag.  Við vitum að allt kostar þetta peninga og að félagsmiðstöðin okkar er ung ennþá.

En svo við víkjum okkur aftur að þinginu, þá lauk því með því að við kynntum niðurstöður umræðuhópanna hvort fyrir öðru og einnig fyrir heilbrigðisráðherra, dómsmálaráðherra og menntamálaráðherra sem allir sáu sér fært að mæta og hlíða á tillögur okkar.

Með þessari greinargerð viljum við þakka kærlega fyrir þann fjárhagslega styrk og þá tiltrú sem okkur var sýnd með því að senda okkur á þetta Landsþing, sem ekki aðeins gaf okkur tækifæri á að kynnast öðrum unglingum og sjónarmiðum, heldur sannfærði okkur ennþá betur um það hversu vel við búum hér í Grundarfirði.

Takk fyrir okkur

 

Ræða 8. bekkjar

Ræðumaður: Guðjón Örn Guðjónsson

Kæri bæjarstjóri, bæjarstjórn og aðrir gestir!

Ég heiti Guðjón Örn Guðjónsson og er hér fyrir hönd 8. bekkjar Grunnskóla Grundarfjarðar.

Við erum sammála í mínum bekk að margt gott er gert fyrir okkur unglingana.  Við höfum t.d. félagsmiðstöð sem við erum ánægð með að mestu, fleiri mættu þó sækja það sem boðið er upp á þar, hún mætti líka vera opin oftar.  Einnig myndum við vilja sjá þythokkíborð í félagsmiðstöðinni.

Við höfum íþróttahús sem við vildum að væri stærra og opið fyrir unglingadeildina í frímínútum og í hádegi eins og var gert í fyrra.  Við erum þó nokkuð ánægð með það úrval íþrótta sem boðið er upp á en gaman væri að hafa tækifæri til að æfa t.d. karate og badminton.  Við höfum áhyggjur af því þegar framhaldsskólinn verður stofnaður að íþróttahúsið muni þá verða of lítið.

Flestir krakkarnir í 8. bekk eru duglegir að mæta á fundi hjá KFUM og K og stór hluti bekkjarins ætlar að fara til Tékklands með þeim í sumar.  Starfið er skemmtilegt, leiðtogarnir frábærir og við myndum ekki vilja vera án þessa starfs.

Við erum einnig ánægð með að Tilvera skuli vera starfandi hér í bænum.  Fundirnir eru fræðandi en krakkarnir mættu vera duglegri að mæta.

Þó að við séum nokkuð ánægð með það sem er gert fyrir okkur þá má alltaf bæta hlutina.  Kannski er það sem er í boði eitthvað sem hentar ekki öllum.  Það mætti búa til klúbbastarf og hafa það í skólanum seinni part dagsins.  Það gætu verið t.d. ljósmyndaklubbur, tölvuklúbbur, spilaklúbbur, tónlistarklúbbur, lesklúbbur og frímerkjaklúbbur, svo eitthvað sé nefnt.

Einnig væri gaman að stofna ritnefnd sem sæi um útgáfu á skólablaði.

Okkur finnst vanta mötuneyti í skólanum þar sem seldar væru samlokur og matur sem væri hægt að hita upp, t.d. í örbylgjuofni.

Á sumrin dettur allt félagsstarf niður og lítið fyrir okkur að gera.  Við værum alveg til í að sjá félagsmiðstöðina opna einu sinni í viku svo að unglingarnir geti hist annars staðar en í sjoppunni.

Í sambandi við unglingavinnuna þá eiga þeir sem vinna vel að fá bónus.  Við viljum fjölbreyttari störf, ekki alltaf að gera það sama.

Að lokum viljum við þakka fyrir allt sem vel hefur verið gert.

Takk fyrir.

 

Ræða 9. bekkjar

Ræðumaður: Sædís Alda Karlsdóttir

Ágæti bæjarstjóri, bæjarstjórn og aðrir gestir, við erum öll sammála um að félagslífið okkar er frábært það er nóg að gera og stundum svo mikið að maður þarf að velja á milli. Það er gott að búa hérna vegna þess að  þetta er mjög gott  bæjarfélag þó að veðrið sé ekki alltaf gott. Það sem mætti betur fara er t.d. íþróttahúsið sem er  voðalega lítið. Þegar framhaldsskólinn verður kominn vantar nýtt eða stærra íþróttahús því það er skylda að kenna íþróttir í framhaldsskólum og stundartaflan er nú þegar fullbókuð. Það mætti líka laga þessa skíðalyftu. Við erum einnig svolítið ósátt  með breytingarnar á skólatímum. Það er mjög þvingað að sitja í 8o. mín. og læra. Það endar með því að maður er bara að bíða eftir frímínútunum og nennir ekki að fylgjast með námsefninu. Þar af leiðandi þætti okkur  gott að bætt væri við einum frímínútum.

Þó að íþróttaaðstæður hér á veturna séu frekar slæmar langar okkur að minnast á það að íþróttaaðstæður hér á sumrin eru mjög góðar og með þeim bestu á Nesinu. Það mætti samt byrja fyrr og enda seinna með útiæfingar, byrja fyrr á vorin og enda seinna á haustin.

Í sambandi við unglingavinnuna hér á sumrin  þá finns okkur  fáranlegt  að  krakkar sem eru duglegir að vinna fái jafnmikið og þeir sem vinna illa.Við krakkarnir erum sammála  um að ef laununum yrði deilt niður á unglingana eftir vinnusemi þá gætum við mjög líklega unnið með jákvæðara hugarfari. Einnig finnst okkur nauðsynlegt  að  vanda svolítið  valið á flokkstjórum og ekki hafa einhverja sem eru  liggur við á lægra þroskastigi en við.

Eins og allir vita er tónlistarlíf hér á Grundarfirði mjög mikið og það væri verulega nice ef bæjarfélagið gæti útvegað hjómsveitarhúsnæði svo að þessi jákvæða starfsemi  geti haldið áfram.

Áður en ég enda þetta vil ég þakka fyrir allt það sem gert hefur verið fyrir okkur í gegn um árin.

Með þessum orðum vil ég fyrir hönd 9. bekkjar þakka fyrir okkur.

TAKK FYRIR. 

 

Ræða 10 bekkjar:

Ræðumaður: Kristófer Eðvarðsson

Ágæti bæjarstjóri, bæjarstjórn og aðrir gestir!

Það að fá tækifæri að koma hér á þetta málþing og tjá okkur um þau málefni sem á okkur brenna er okkur mikil ánægja.

Það að vera unglingur í Grundarfirði hefur marga kosti en gott má alltaf bæta.

Það er gott að búa hér í Grundarfirði vegna þess að hér eru vegalengdir stuttar og auðveldar það okkur að sækja það sem í boði er.

Þar sem Grundarfjörður er lítill bær finnum við til öryggis og það finnst okkur mikill kostur.

Aðstaða okkar til félagsstarfa er góð. Við höfum góða félagsmiðstöð og aðstaða okkar er mun betri en hjá mörgum á höfuðborgarsvæðinu og erum við ánægð með það.

Eins og staðan er í dag er félagsmiðstöðin okkar opin einu sinni í viku og íþróttahúsið býður upp á íþróttir einu sinni í viku.  En eins og við vitum öll að þá erum við  einstaklingar með mismunandi áhugamál og finnst okkur vanta fjölbreyttara félagsstarf.

Það að hanga út í sjoppu getur verið ágætt út af fyrir sig. Okkur finnst þó mun uppbyggilegra að hittast í félagsmiðstöðinni og hafa eitthvað fyrir stafni...........spila, hlusta á músík, horfa á myndband eða bara tala saman í sófanum. Það myndi því gera heilmikið fyrir okkur ef félagsmiðstöðin væri opin oftar í vikunni.

Íþróttaiðkun meðal unglinga hér í Grundarfirði er mikil og sjáum við það ekkert nema kost að við séum að byggja upp heilbrigða sál í hraustum líkama. Við teljum þó íþróttahúsið of lítið og það er nokkuð ljóst að það er alltof lítið þegar framhaldsskólinn verður settur hér á fót. Við teljum því nauðsynlegt að aðstaða okkar til íþróttaiðkana verði bætt í nánustu framtíð.

Við unglingarnir hlustum mikið á tónlist og höfum mörg hver áhuga á að reyna fyrir okkur á þeim vettvangi. En til að geta spilað góða músík þarf aðstöðu til æfinga. Við teljum að fáum við aðstöðu til að æfa og samhæfa okkur í tónlist þroskum við tónlistarhæfileika okkar sem leiðir til þess að við verðum betri tónlistarmenn.

Ef við snúum okkur  þá að skólamálum. Skólinn  er staður þar sem við eyðum stórum hluta dagsins. Skólinn okkar er ágætur að mörgu leyti það eru þó nokkur atriði sem okkur þætti að betur mættu fara.

Góð næring hjálpar til við einbeitningu í námi það væri því kostur að fá mötuneyti við skólann til að sem flestir fengju heita máltíð í hádeginu. Það væri líka gaman að hafa mötuneytið sameiginlegt með framhaldsskólanum til að efla samganginn milli nemenda á þessum tveimur skólastigum.

Í skólanum fer mikill tími í bóklegar greinar, við þurfum því að sitja mikið og oft á tíðum getur þessi seta á hörðum stólum verið þreytandi fyrir líkamann  þar sem við erum að vaxa og þroskast.  Það að fá góða stóla og borð sem eru í samræmi við hæð okkar myndi  bæta vinnuaðstöðu okkar til muna.

Okkur finnst vanta fleiri verklegar greinar hér við skólann það myndi gera skólann fjölbreyttari og skemmtilegri.

Það er talað um það núna að bæta eigi skólabraginn og teljum við að ofangreind atriði séu þættir í því að stuðla að bættum skólabrag.

Með unglingsárunum kemur hvolpavitið, við förum að hafa áhuga á hinu kyninu. Við teljum því nauðsynlegt að hafa aðgang að smokkasjálfsala. Það er erfitt fyrir okkur og við þorum einfaldlega ekki að versla getnaðarvarnir í verslunum hér. Að hafa aðgang að smokkasjálfsala auðveldar okkur aðganginn að getnaðarvörnum. Með því að leggja þetta til hér á þessu málþingi finnst okkur að við séum að sýna ábyrgð í kynlífi þar sem við vitum að smokkurinn er vörn gegn kynsjúkdómum og ótímabærum þungunum.

Að lokum viljum við koma að því að bæta mætti sumarvinnu unglinga hér í bænum. Við gerum okkur grein fyrir því að við erum oft á tíðum ekki ódýr í rekstri fyrir foreldra okkar. Það að fá tækifæri til að vinna okkur inn pening á sumrin yrði til þess að lækka útgjöldin fyrir foreldra okkar.

Það er ósk okkar að það sem við höfum lagt hér fram verði skoðað með opnum hug. Grundarfjörður er fallegur bær í fallegu umhverfi þar sem okkur finnst að öllu jöfnu gott að búa.

Fyrir hönd 10.bekkjar þakka ég fyrir góða áheyrn.

 

Ræða frá fjarnámsnemum:

Ræðumaður: Hildur Margrét Ríkarðsdóttir

Ágæta bæjarstjórn,

fundarstjóri, ágætu Grundfirðingar.

Ég er komin hingað í dag sem fulltrúi  fjarnámsnema  með vangaveltur  um það umhverfi sem fólk á framhaldsskólaaldri vildi gjarnan sjá hér í Grundarfirði.

Eins og er, erum við  ekki mjög mörg sem erum í fjarnáminu og/eða erum heima í Grundarfirði að vinna.

Og oft á köflum finnst okkur  lítið við að vera  þrátt  fyrir að sum okkar stundi íþróttir, séum í björgunarsveitinni, hittumst hjá KFUK og förum á rúntinn, en það er nú bara þannig að við höfum misjafnan smekk og misjöfn áhugamál.

Fyrir fáeinum vikum lagði Anna skólastjóri fyrir okkur spurningalista þar sem við nemendur í fjarnáminu vorum beðin um að koma með ábendingar um það sem við töldum vanta í samfélagið, sérstaklega með það í huga  þegar  fleiri  á okkar aldri færu að vera heima.

Það sem nemendur  nefndu var:

-         Kaffihús, það sem sem hægt  væri að koma saman og spjalla.

-         Ákveðin kvöld í félagsmiðstöð.

-         Bíósýningar.

-         Hvað varðar íþróttir, nefndu margir að þeir vildu  komast í tækjasal, einnig nefndu margir að þá langaði að stunda box, einnig var  nefnt  stærra íþróttahús og sundlaug  sem væri opin allt árið.

-         Það kom einnig fram að erfitt væri fyrir hljómsveitir að fá húsnæði til að æfa í.

-         Það kom fram að nemendum þætti líka allt í fína að fara t.d. til  Ólafsvíkur og/eða Stykkishólms í leit að afþreyingu.

Góðir fundarmenn 

að lokum,

Nokkrir nemendur í fjarnáminu hafa einnig verið við nám annarsstaðar, í stærri skólum.

Þeirra ábending er:

Leggið   mikla áherslu á að komu upp öflugu nemandafélagi í nýja  framhaldsskólanum og veitið þeim sem þar  dveljast  til forustu mikinn stuðning.

Þakka gott hljóð.