Margrét Sif Sævarsdóttir verður leikskólastjóri við Leikskólann Sólvelli, frá 1. janúar nk. að telja.

Starfið var auglýst í byrjun nóvember og samþykkti bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar ráðningu Margrétar á fundi sínum nú undir kvöld, 24. nóvember, að fenginni jákvæðri umsögn skólanefndar.

Margrét Sif hefur lokið framhaldsmenntun MT í kennslufræðum með áherslu á íslensku frá Háskóla Íslands, auk þess sem hún hefur lokið BS gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum á Bifröst.

Hún hefur starfað við Grunnskóla Snæfellsbæjar frá 2007 og síðustu árin sem kennari. Margrét Sif sat í stjórn Umf. Víkings/Reynis, var þar formaður og um tíma framkvæmdastjóri félagsins. Auk þess hefur hún reynslu sem íþróttaþjálfari í fótbolta, frjálsum íþróttum og íþróttaskóla fyrir leikskólabörn. Margrét Sif tók sæti í bæjarstjórn Snæfellsbæjar sl. sumar og sinnir á þeim vettvangi ýmsum nefndarstörfum.

Margrét Sif er fædd og uppalin í Grundarfirði, hún er búsett í Ólafsvík, gift og þriggja barna móðir.

Leikskólinn Sólvellir er þriggja deilda leikskóli og í skólanum eru tæplega 50 börn, frá 12 mánaða upp að 5 ára. Áhersla er lögð á „uppeldi til ábyrgðar“ og nú er unnið að því að innleiða gæðaviðmið í leikskólastarfi, eins og fram kom í frétt í vikunni.

Margrét Sif tekur við starfi leikskólastjóra af Heiðdísi Lind Kristinsdóttur sem lætur af því starfi í lok árs. Heiðdís er nú í orlofi og gegnir Ingibjörg E. Þórarinsdóttir aðstoðarleikskólastjóri stöðunni fram til áramóta.  

Við hlökkum til samstarfsins við Margréti Sif og bjóðum hana velkomna til starfa á nýju ári!