Aðalfundur Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV) var haldinn föstudaginn 28. október, á Hótel Glymi á Hvalfjarðarströnd.

 

Stærstu umfjöllunarefni fundarins voru menningarsamningur og vaxtarsamningur á Vesturlandi, en auk þess voru samþykktar margvíslegar ályktanir um hagsmunamál Vestlendinga.

 

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra fylgdi úr hlaði vaxtarsamningi um uppbyggingu atvinnulífs á Vesturlandi, sem verið hefur í undirbúningi, en slíkir samningar hafa m.a. verið undirritaðir fyrir Eyjafjörð og Vestfirði.

 

Ennfremur var undirritaður menningarsamningur fyrir Vesturland, sem beðið hefur verið eftir. Það er menntamálaráðuneytið sem gerir slíkan samning um fjárhagslegan stuðning við menningarlíf á svæðinu. Slíkir samningar hafa verið gerðir við nokkur önnur landsvæði, t.d. Austurland.

 

Á fundinum var samþykkt tillaga um að láta fara fram endurskoðun laga SSV, en á næsta ári er fyrirsjáanlegt að sveitarfélögum á Vesturlandi fækki úr 17 í 11. Það meðal annars kallar á endurskoðun á ákvæðum laganna, s.s. um fjölda kjörinna fulltrúa.

 

Grundarfjarðarbær átti 3 kjörna fulltrúa á aðalfundi SSV.