28. október sl. var í Hvalfirði undirritaður samningur um samstarf menntamálaráðuneytis og samgönguráðuneytis við 17 sveitarfélög á Vesturlandi um menningarmál og menningartengda ferðaþjónustu. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra undirritaði samninginn f.h. ríkisins, en Helga Halldórsdóttir formaður Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi undirritaði samninginn fyrir hönd sveitarfélaganna. Er þetta í fyrsta sinn sem gengið er til slíks samstarfs við Vesturland, en áður hefur verið gengið til samstarfs við Austurland með sambærilegum hætti.

Tilgangur menningarsamningsins er að efla menningarstarf á Vesturlandi og beina stuðningi ríkis og sveitarfélaganna við slíkt starf í einn farveg. Jafnframt eru áhrif sveitarfélaga á forgangsröðun verkefna aukin. Menningarráð Vesturlands verður samstarfsvettvangur sveitarfélaganna og hefur meðal annars það hlutverk að standa fyrir öflugu þróunarstarfi í menningarmálum, úthluta fjármagni til menningarverkefna og verkefna á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu á Vesturlandi jafnframt því að annast framkvæmd samningsins.  

 

Hægt er að nálgast ýtarlegri upplýsingar hér

 

Fengið af vef  Menntamálaráðuneytis,