Á fundi bæjarráðs Grundarfjarðarbæjar í gær, þ. 18. september, voru teknar ákvarðanir um mál sem munu marka nokkur tímamót í bæjarlífinu.  Í fyrsta lagi var ákveðið að ráða markaðsfulltrúa í þeim tilgangi að koma byggðarlaginu enn frekar "á kortið" eins og sagt er.  Markaðsfulltrúi mun sinna mörgum hliðum á almennri markaðssetningu byggðarinnar sem og mannlífi og starfsemi.  Í öðru lagi var samþykkt að ganga til samninga við ALTA ráðgjafarþjónustu um að fyrirtækið standi fyrir stefnumótun í ferðaþjónustu í Grundarfirði.  Vonir eru bundnar við það að slík stefnumótun muni leggja grunn að markvissri markaðssókn ferðaþjónustuaðila í byggðarlaginu til framtíðar.  Samþykkt var að hefja undirbúning að stofnun Vísindaseturs Breiðafjarðar sem hafi það að markmiði að vinna að rannsóknum og fræðslu um nýsköpun og auðlindastýringu á sviði náttúrufræða, m.a. jarðfræði með sjálfbæra þróun að markmiði.  Segja má að þessar tímamótaákvarðanir séu að hluta svar bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar við því að byggðarlagið var ekki haft með í ákvörðunum ríkisstjórnarinnar um mótvægisaðgerðir vegna skerðingar á þorskveiðiheimildum.  Bæjarstjórnin mun sjálf leggja sig fram um að vinna sem best að mótvægisaðgerðum heima fyrir hvernig sem fer endanlega um aðgerðir ríkisvaldsins.