Vinna við Grundarfjarðarlínu 2, jarðstrengs á milli Grundarfjarðar og Ólafsvíkur, er hafin að nýju. Verkefnið hefur tekið lengri tíma en til stóð en vegna vetrarveðurs þurfti Steypustöð Skagafjarðar að stöðva lagningu strengsins. En þeir hjá Steypustöðinni sátu ekki auðum höndum og náðu að undirbúa allar þveranir og vinnuslóða í vetur.

 

Vinna hófst þriðjudaginn 24.apríl og tók mjög stuttan tíma að leggja þrjá tveggja km einleiðara. Venjulega tekur sú vinna tvo til þrjá daga en i þetta skiptið tók það bara einn dag og var Steypustöð Skagafjarðar eingöngu einn og hálfan tíma að draga út síðasta leiðarann.


Guðmundur Kristjánsson verkefnastjóri Landsnets við Grundarfjarðarlínu segir að góður undirbúningur hafi skilað sér og telur að þetta sé met í útdrætti á einum streng í þeim strengverkefnum sem Landsnet hafi séð um.