Tillaga vegna breytingar á Aðalskipulagi Grundarfjarðar, vegna hugmynda um uppbyggingu á miðbæjarreit

Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar hefur samþykkt að auglýsa tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Grundarfjarðarbæjar 2019-2039 vegna uppbyggingar á miðbæjarreit.

Þar sem Grundargata, Hamrahlíð og Hrannarstígur í Grundarfirði mætast eru fjórar samstæðar lóðir, allar óbyggðar að einni undanskilinni. Á þeirri lóð stendur hús, byggt 1945, í eigu bæjarins en húsið var keypt af skipulagsástæðum og ætlað til niðurrifs. Reiturinn er á mikilvægum krossgötum í bænum og tilheyra umræddar lóðir Miðsvæði í aðalskipulagi með auðkenni M-1.

Um reitinn segir að hæð húsa sé takmörkuð við tvær hæðir. Aðalskipulag gerir ráð fyrir uppbyggingu miðbæjarstarfsemi á reitnum, en vegna miðlægrar legu er talið mikilvægt að nýta landið vel og leyfa hærri hús en skipulagsákvæðin gerðu ráð fyrir við gildistöku aðalskipulagsins. 

Af þessum sökum vill bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar gera breytingu á Aðalskipulagi Grundarfjarðarbæjar 2019-2039, á þá leið að heimilt verði að byggja þrjár hæðir á umræddum reit, með möguleika á inndreginni fjórðu hæð. Nánar verður síðan kveðið á um fyrirkomulag húsa á deiliskipulagsstigi. 

Skipulagslýsing og tillaga á vinnslustigi var kynnt í einu lagi í apríl 2025. Umsagnir sem bárust þá voru hafðar til hliðsjónar við gerð þessarar tillögu. 

Skipulagsstofnun hefur lokið yfirferð á tillögu að breytingu aðalskipulags vegna miðbæjarreits og gerir ekki athugasemd við að skipulagstillagan verði auglýst skv. 31. gr. skipulagslaga.

Skipulagsfulltrúi auglýsir nú tillöguna í samræmi við 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. samþykkt bæjarstjórnar 8. maí sl. 

Tillagan sjálf, dags. 30. apríl 2025, um breytingu á Aðalskipulagi Grundarfjarðar 2019-2039 vegna miðbæjarreits á horni Grundargötu, Hrannarstígs og Hamrahlíðar í Grundarfirði 

Tillagan var birt í Skipulagsgátt 11. júní sl.

Athugasemdum við aðalskipulagsbreytinguna skal skilað í gegnum Skipulagsgáttina, www.skipulagsgatt.is - en athugasemdafrestur við tillöguna er til og með 30. júlí 2025. 

Ofangreind gögn eru til sýnis á vef bæjarins (www.grundarfjordur.is), í Ráðhúsinu Borgarbraut 16 og Skipulagsgáttinni (www.skipulagsgatt.is).

Opið hús um tillöguna verður miðvikudaginn 25. júní nk. frá kl. 12-13 í fundarherbergi í Ráðhúsinu að Borgarbraut 16. 

Grundarfirði, 11. júní 2025

Sigurður Valur Ásbjarnarson, 
skipulagsfulltrúi Grundarfjarðarbæjar