Í gær, þriðjudaginn 21. október, var vígð ný bryggja í Grundarfjarðarhöfn sem ber nafnið Miðgarður. Vígsluathöfnin var hin hátíðlegasta. Eftir stutt ávarp frá Guðmundi Inga Gunnlaugssyni klipptu þeir Sturla Böðvarsson forseti Alþingis, Jóhannes Sverrisson frá Siglingastofnun og Hafsteinn Garðarsson hafnarvörður Grundarfjarðarhafnar á vígsluborðann. Að því loknu fór sr. Aðalsteinn Þorvaldsson með bæn og blessaði mannvirkið. Að lokinni athöfn var móttaka í samkomuhúsi Grundarfjarðar þar sem gestir nutu veitinga í boði Grundarfjarðarhafnar.

Ákvörðun um smíði Miðgarðs var tekin árið 2004 og hófust framkvæmdir í júlí árið 2006. Margir aðilar komu að verkinu og stóðu sig allir með prýði. Þess má geta að í Miðgarði eru um 300 tonn af stáli, 720 m² af steypu og 38.000 m² af kjarna og grjóti. Miðgarður leysir Litlubryggju af hólmi, sem bæði var smá (eins og nafnið ber með sér) og farin að láta á sjá, en hún er orðin 65 ára gömul.