Það er óhætt að segja að miklar annir hafi verið í Grundarfjarðarhöfn að undanförnu og reyndar það sem af er árinu. Í dag, 22. feb., hafa um 1750 tonn borist að landi það sem af er febrúarmánuði, en í febrúar í fyrra var landað 1828 tonnum. Janúarmánuður sl. var sá stærsti í aflatölum þess mánuðar fram að þessu, heildarafli var 1.671 tonn samanborið við 1.248 tonn á sama tíma í fyrra, en á liðnum árum hefur um 1000 tonnum verið landað í janúarmánuði. A.m.k. fimm aðkomuskip hafa landað hér í febrúar og hafa sum hver haft hér viðkomu reglulega að undanförnu.

Akureyrin EA í Grundarfjarðarhöfn 22. febrúar

Það hefur því verið mikið annríki hjá Hafsteini hafnarverði við að stýra umferð og taka á móti skipum og afla til vigtunar.

Fyrir utan umsvif hafnarinnar sjálfrar eru fjölmargir aðilar sem þjónusta skip og útgerðir, eins og t.d. Djúpiklettur ehf., löndunarþjónusta o.fl., Ragnar og Ásgeir vöruflutningar, sem hafa verið á ferðinni nótt sem nýtan dag að undanförnu, ísverksmiðjan Snæís sem er nýtískuleg og sjálfvirk, á besta stað á hafnarbakkanum. Einnig Vélsmiðjan Berg, rafeindavirkjarnir Steini og Halldór í Mareind, Netaverksmiðja Guðmundar Runólfssonar hf., Fiskmarkaður Íslands hf. og fleiri.

Það er ánægjulegt að sjá driftina í kringum höfnina og ef litið er yfir athafnasvæði hafnarinnar á erilsömum degi, má sjá lyftara með kör keyra fram og til baka, gámastæður fluttar fram og til baka með stórum lyfturum, flutningabíla á ferð, aðra þjónustuaðila sem smeygja sér inn á milli, upp og niður eftir kajanum, allt og allir á iði og minnir kannski helst á vel skipulagt maurabú! 

 

Hafnarstjóri tók meðfylgjandi myndir á og við höfnina í dag.

Þórður Magnússon í Djúpakletti og Hafsteinn Garðarsson hafnarvörður

Þóður Magnússon og starfsfólk hans í Djúpakletti lét sig ekki muna um að slægja 40 tonn sl. nótt. Var svo mættur á kajann morguninn eftir í löndun.

Ívar Árnason og Hafsteinn hafnarvörður

Óli á Mýrum og Lalli í Gröf vinna við breytingar á húsnæði FISK

Farsæll SH 30 í þokumistri

Allt á fullu við löndun úr Akureyrinni

Akureyrin EA, skip Samherja frá Akureyri, kom inn til löndunar í Grundarfjarðarhöfn upp úr hádegi í dag. Skipstjórinn, sem er uppalinn í Grundarfirði, sigldi þá í fyrsta sinn til hafnar í sínum gamla heimabæ, reyndar í þykkri þoku og þurfti að hafa fyrir því að sannfæra áhöfn sína um að víst væri Kirkjufellið fallegasta fjallið.... sem kom reyndar í ljós nokkru síðar þegar þokunni létti.

Guðmundur Freyr Guðmundsson skipstjóri á Akureyrinni EA frá Akureyri, glaður í „heimahöfn“

Athafnasvæði hins nýja hluta Norðurgarðs nýtt til hins ýtrasta ...

hafnarstemmning...

Frá Grundarfjarðarhöfn þriðjud. 22. febrúar 2005

Flugumferðarstjórinn? nei, Hafsteinn hafnarvörður í ríki sínu

Farsæll, Sóley og Akureyrin EA, flutningabílar og gámar á bryggjunni