Eins og flestum er kunnugt stendur nú yfir vinna við mótun fjölskyldustefnu Grundfirðinga. Stýrihópur hefur verið að störfum. Á íbúaþingi í mars sl.  komu fram margar gagnlegar ábendingar og á fjölmennum og góðum fundi í lok nóvember var enn bætt við.    

 

Nú er komið að næsta skrefi og miðvikudagskvöldið 18. janúar n.k. verður haldinn fundur þar sem vinnuhópar hefja störf.  Þegar hafa um þrjátíu manns skráð sig í vinnuhópa og geta allir áhugasamir bæst í hópinn með því að mæta á fundinn á miðvikudaginn næsta. 

 

Hver vinnuhópur fjallar um málefni fjölskyldu og samfélags út frá ákveðnum aldurshópi. Fyrir hverjum hópi fara tveir hópstjórar, sem þegar hafa verið fengnir til starfans.  Hóparnir verða fimm og skiptingin er þannig:  0-14 ára, 14-20 ára, 20-40 ára, 40-60 ára og 60 ára og eldri.  Hver hópur tekur fyrir þarfir einstaklinga á viðkomandi aldri og hans nánustu. Horft verður á ýmsa málaflokka, t.d. atvinnu, umhverfi, þjónustu, félagslíf og fleira. Í raun er allt til umræðu sem íbúar vilja að komi fram í fjölskyldustefnu. 

 

Stefnt er að því að hver hópur fundi fjórum sinnum á fjórum (fimm?) vikum og síðan er stefnt að opnum fundi í lok febrúar þar sem hóparnir skila niðurstöðum sínum.  Þá tekur stýrihópur við þræðinum og vinnur drög að fjölskyldustefnu sem bæjarstjórn tekur fyrir í mars.

 

Sem dæmi um það sem upp kom á nóvemberfundinum má nefna: ,,Ekkert fjölskyldulíf án atvinnu!”.  ,,Hér vantar enn meira af íbúðarhúsnæði”. ,, Námskeið eru æskileg í íslensku og um réttindi og skyldur, fyrir erlenda íbúa”. ,,Skólar hafi sveigjanleika til að takast á við ólíkar þarfir”. 

 

Það er von stýrihóps að sem flestir taki þátt í þessari umræðu, sem miðar að því að gera gott mannlíf í Grundarfirði enn betra.

 

Stýrihópur um mótun fjölskyldustefnu