Eins og fram hefur komið á Grundarfjarðarvefnum varð mjög góður árangur af borun rannsóknarholu við Berserkseyri þar sem borað var í gegnum tvær sprungur sem ekki voru þekktar. Boruð var 403 metra hola með 30° halla eða niður í um 300 metra á láréttu plani. Nokkuð salt er í vatninu og kolsýruinnihald telst vera nær því að vera helmingur á við ölkelduvatn, nokkuð meira en út í Laugaskeri.  

Á næstu vikum verða gerðar rennslismælingar og hitamælingar ásamt því að lokið verður við efnagreiningu vatnsins. Ennfremur verður unnið að hagkvæmnisathugunum út frá nýjustu upplýsingum. Ráðgjafar Íslenskra orkurannsókna munu vinna tillögur að gerð holu og staðsetningu varmaskiptis. Ekki er ljóst sem stendur hvort hægt verði að leiða vatnið til Grundarfjarðar eða þurfi að setja upp varmaskipti á staðnum.

EB