Síðustu daga hafa þrettán nemendur frá Washington háskóla í Seattle dvalið í Grundarfirði ásamt kennara sínum. Í heimsókninni var unnið að verkefni tengdu Svæðisgarðinum í samstarfi við nemendur SFN. Í verkefninu var leitast við að svara spurningunni: Hvaða þýðingu hefur Svæðisgarðurinn fyrir ungt fólk á svæðinu og hverjir eru framtíðarmöguleikarnir? Nemendum var skipt niður í fimm hópa samkvæmt þemakorti Svæðisgarðsins og var rýnt í eftirfarandi þemu: matarkistan, sagnaarfur, sjósókn, friðlýst hús og kirkjur og að síðustu, landslag og leiðir. Meðal þess sem nemendur tóku sér fyrir hendur var hringferð um Snæfellsnesið, heimsókn til bænda, viðtöl við eldri borgara og ýmislegt fleira. Að lokum voru niðurstöður svo kynntar fyrir kennurum, fulltrúum Svæðisgarðsins og ráðgjafafyrirtækinu Alta. Yfirumsjón verkefnisins var í höndum Margaret Willson, mannfræðings, sem er mörgum Grundfirðingum kunnug, Johönnu Van Schalkwyk kennara í FSN ásamt aðstoð frá Lofti Árna Björgvinssyni enskukennara við FSN.

Verkefnið þótti takast vel til og kom margt áhugavert fram varðandi væntingar ungs fólks til svæðisgarðsins. Erlendu nemendurnir voru hæst ánægðir með móttökur heimamanna og létu þau storminn sem geisaði ekki á sig fá. Þau voru öll sammála um það að dvölin í Grundarfirði myndi seint líða þeim úr minni.

 

Hópurinn frá Seattle er nú staddur í Borgarnesi og verður á Íslandi þar til í byrjun desember.  Megnið af tímanum sem þau eiga eftir munu þau dvelja við nám í Háskólanum á Akureyri.