Það hljómar kannski eins og aftan úr fornöld að Norrænir menn og konur komi saman til að segja sögur.  En það er öðru nær, því nú stendur yfir Norrænt sagnaþing í Grundarfirði. 

Sagnalist, það að segja sögur, nýtur vaxandi vinsælda hér á landi, eins og víða í löndunum í kringum okkur.  Sagðar eru sögur í skólum, boðið er upp á sögustundir fyrir ferðamenn og sögur eru einnig notaðar í tengslum við rekstur fyrirtækja og stofnana.  Stöðugt fleiri bætast í hóp sagnaþulanna, fólks sem sækir sér þekkingu og reynslu í því að segja sögur og fæst við það á ýmsum vettvangi.

Íslenskir sagnaþulir taka virkan þátt í samstarfi norrænna sagnaþula og á ári hverju er haldið fimm daga norrænt sagnaþing með námskeiðum, sögustundum og samveru.  Sagnaþingið hófst síðastliðinn sunnudag, þann 19. júlí og stendur til 24. júlí. 

Þátttakendur og kennarar koma frá öllum norðurlöndum og Kanada, auk Íslendinga.  Boðið er upp á nokkur námskeið, meðal annars um húmor og alvöru, sagnagerð fyrir börn og tengsl ævintýranna og eigin lífs.  Hvert námskeið stendur í fjóra daga og er ýmist kennt á norðurlandamálum eða ensku.

Þriðjudaginn 21. júlí verður boðið upp á opið sagnakvöld í Grundarfjarðarkirkju, þar sem kennarar á námskeiðunum segja sögur. 

Frá örófi alda hefur fólk komið saman og sagt og hlýtt á sögur.  Sagnahefðin er rík í norrænni menningu og á síðustu árum hefur átt sér stað mikil vakning á þessu sviði.  Það er því vel við hæfi að í ár komi norrænir menn og konur saman á Íslandi, segi sögur og þjálfi sagnahæfileika sína.  Enn er hægt að skrá þátttöku, en aðeins örfá pláss eru laus.  Vonast er til þess að sem flestir nýti sér þetta einstaka tækifæri til að sækja sér þekkingu og reynslu í því að segja sögur.