Norska húsið í Stykkishólmi hefur sumarstarfsemi sína fimmtudaginn

24. maí 2007,  kl. 17.30 með því að

Per Landrø og Vilde Høvik Røberg frá Norska sendiráðinu opna sýninguna “Af norskum rótum”

Forsmíðuð katalóghús frá Strømmen Trævarefabrik 1884-1929 og norsk áhrif á íslenska byggingasögu.

 

Sýningin er opin daglega kl. 11.00-17.00 og stendur til 22. júlí 2007. 

Að öllum líkindum hafa hús verið flutt tilsniðin frá Noregi þegar á fyrstu árum búsetu norrænna manna á Íslandi og sennilega hefur slíkur innflutningur átt sér stað á öllum öldum síðan. Elstu hús sem varðveist hafa hér á landi og með vissu eiga uppruna sinn í Noregi eru frá seinni hluta 18. aldar. Katalóghúsin frá því um aldamótin 1900 eru hins vegar æði mörg og eru þau okkar áþreifanlegustu vitnisburðir þessarar menningarstauma.

 

Áhrif norsku sveitaseturhúsanna urðu mikil á Íslandi, bæði vegna innflutnings verksmiðjuframleiddra húsa og ekki síst vetgna katalóga sem sýndu hús, byggingarhluta og skraut og notaðir voru sem fyrirmyndir hjá íslenskum forsmiðum.

 

Norska sýningin “Complet færdige Huse” um verksmiðjuframleiðslu á húsum og byggingarhlutum hjá Strømmen Trævarefabrik í Strømmen nálægt Lillestrømm, var sett upp af Akershus Fylksmuseum, Oslo Bymuseum og Fortidsminneforeningen í Oslo og Akershus árið 2003.

 

Vegna þeirra áhrifa sem Norsku sveitaseturshúsin höfðu á Íslandi þótti tilvalið að setja þessa sýningu upp hérlendis með viðbót um katalógshús og sveitaseturshús á Íslandi.

 

Íslenski hluti sýningarinnar er unnin á vegum Húsafriðunarnefndar ríkisins, Minjasafns Reykjavíkur og Norska sendiráðsins. Efnið er að mestu leiti tekið úr bókinni “Af norskum rótum – Gömul timburhús á Íslandi” sem gefin var út af Máli og Menningu árið  2003.

 

 

Norska húsið er, eins og nafnið gefur til kynna forsmíðað norkst hús, reist árið 1832 af Árna Thorlacius kaupmanni og útgerðarmanni í Stykkishólmi. Norska húsið er nú í eigu Byggðasafns Snæfellinga og Hnappdæla og á miðhæðinni hefur verið sett upp heimili Árna og Önnu Thorlacius “Heldra heimili í Stykkishólmi á 19. öld”. Á jarðhæð eru sýningarsalir og Krambúð þar sem hægt er að fá vandað handverk, listmuni, minjagripi, póstkort, bækur og gamaldags nammi, gamalt leirtau og fleiri forvitnilegar vörur.Og í risinu er opin safngeymsla þar sem safngestir geta glöggvað sig á hinum miklu viðum sem húsið er byggt úr og upplifað stemmingu liðins tíma á annan hátt en á neðri hæðunum.

 

Norska húsið er opið daglega í sumar kl. 11.00-17.00