Laugardaginn 31. maí 2008, kl. 14.00 hefur Norska húsið í Stykkishólmi sumarstarf sitt með því að Ólafur K. Ólafsson, sýslumaður Snæfellinga, dregur að húni endurgerð af fálkafána Sigurðar Guðmundssonar, málara. Í framhaldi þess mun Símon Sturluson opna tvær bláar þemasýningar: "Eitt sumar í Hólminum bláa" og listsýninguna "Í bláum skugga". Einnig mun karlakórinn Kári syngja nokkur lög. 

Norska húsið er opið daglega í sumar kl. 11.00 - 17.00. 

Árið 1874 létu Árni Thorlacius og synir hans í Norska húsinu gera fálkafána eftir teikningu Sigurðar Guðmundssonar málara og var honum flaggað á þjóðhátíðinni það ár sem óopinberum þjóðfána Íslendinga. Um þennan atburð segir Oscar Clausen m.a. í Sögum og sögnum af Snæfellsnesi: „Þeir Thorlaciusar-feðgar voru þjóðræknir menn og sjálfstæðissinnaðir, enda miklir vinir Jóns forseta og honum handgengnir. Þeir létu þjóðhátíðarárið gjöra sérstakt flagg fyrir  Ísland, fálkaflaggið, og flögguðu með því í fyrsta skipti á hátíðinni í Stykkishólmi. – Þetta flagg var svo viðurkennt skjaldarmerki Íslands, þangað til núverandi flagg fékkst.“ Nú höfum við fengið leyfi til að endurgera þennan fána og mun sýslumaður Snæfellsness og Hnappadalssýslu, Ólafur K. Ólafsson draga fánann að húni og segja nokkur orð um hann. Þá verða opnaðar tvær bláar sýningar í Norska húsinu. Í Mjólkurstofunni er samsýningin „Í bláum skugga“. þar sýna listamenn sem tengdir eru Stykkishólmi á einn eða annan hátt, blá verk. Í Eldhúsinu opnar sýningin „Eitt sumar í Hólminum bláa“ þar sem sýndir verða bláir hlutir sem til eru í eigu safnsins og eins hlutir sem fengnir hafa verið að láni hjá Hólmurum. Símon Sturluson rifjar upp bláar sögur og opnar sýningarnar og nýstofnaður karlakór í Stykkishólmi, Karlakórinn Kári syngur nokkur lög.

Sýningin í Eldhúsi mun standa í allt sumar en sýningin í Mjólkurstofu til 1. júlí n.k.

 

Norska húsið er, eins og nafnið gefur til kynna forsmíðað norskt hús, reist árið 1832 af Árna Thorlacius kaupmanni og útgerðarmanni í Stykkishólmi. Norska húsið er nú í eigu Byggðasafns Snæfellinga og Hnappdæla og á miðhæðinni hefur verið sett upp heimili Árna og Önnu Thorlacius “Heldra heimili í Stykkishólmi á 19. öld”. Á jarðhæð eru sýningarsalir og Krambúð þar sem hægt er að fá vandað handverk, listmuni, minjagripi, póstkort, bækur og gamaldags nammi, gamalt leirtau og fleiri forvitnilegar vörur.Í risinu er opin safngeymsla þar sem safngestir geta glöggvað sig á hinum miklu viðum sem húsið er byggt úr og upplifað stemmingu liðins tíma á annan hátt en á neðri hæðunum.