Alþjóðlega Stuttmyndahátíðin Northern Wave verður haldin í annað skiptið helgina 27. febrúar næstkomandi til 1. mars í Grundarfirði. Hátíðin var haldin í fyrsta skipti í febrúar 2008 og vakti mikla ánægju meðal Grundfirðinga og allra þeirra sem að sóttu hátíðina heim. Vegna mikillar hvatningar hefur hátíðin nú verið gerð að árlegum viðburði. Í ár hafa borist rúmlega 90 stuttmyndir og tónlistarmyndbönd frá 15 löndum. Aðeins 50 af þessum myndum verða þó sýndar í ár og er samkeppnin mun harðari en í fyrra.  

Gjörninga og listahópurinn The Weird Girls eru einar af þeim sem að eiga tónlistarmyndband á hátíðinni en The Weird Girls ætla að framkvæma sinn næsta gjörning Episode 7 á meðan að á hátíðinni stendur en þess má geta að sérstök heimildarmynd er í vinnslu um allt ferlið og komu þessara 20 stúlkna á hátíðina. Listakonan og plötusnúðurinn Kiki-Ow sem að er í forsvari fyrir hópinn mun einnig skemmta á sérstöku electro/ninties lokahófi laugardagskvöldið 28. febrúar ásamt Dj Mokki sem er einnig meðlimur Weird Girls.

Dómarar hátíðarinnar verða sem fyrr Hilmar Örn Hilmarsson tónskáld og Kristín Jóhannesdóttir leikstýra en sérstakur gestadómari og fyrirlesari verður franski leikstjóri Bertrand Mandico. Bertrand þykir hafa skapað sér sértakan myndheim sem að einkennist af skuggalegu andrúmslofti og kaldhæðni sem minnir á einhverskonar blöndu af David Lynch og Michel Gondry. Bertrand er margverðlaunaður fyrir yfir 40 stuttmyndir,auglýsingar og tónlistarmyndbönd og hefur nú hlotið styrk frá Torino film lab fyrir sinni fyrstu bíómynd í fullri lengd "The Man Who Hides the Forest".  Bertrand mun sýna brot úr myndum sínum á hátíðinni og halda fyrirlestur.

Ein bíómynd í fullri lengd verður til sýningar á Northern Wave en það er fyrsta íslenska Avant Garde myndin “Háveruleiki” sem að verður sýnd á föstudagskvöldið að viðstöddum leikstýrum myndarinnar Ásdísi Sif Gunnarsdóttur og Ingibjörgu Magnadóttur.

Frekari upplýsingar um dagskrá hátíðarinnar og gistingu er hægt að nálgast á www.northernwavefestival.com. Búist er við að hátíðin verði mun fjölmennari í ár en í fyrra en nóg gistiaðstað er í Grundarfirði þar sem að bærinn býr að bæði farfuglaheimili og hóteli.