Nýir teigar og brautarmerkingar á frisbígolfvelli

 

Starfsfólk áhaldahúss lauk fyrr í vikunni við uppsetningu á brautarmerkingum við teiga á frisbígolfvellinum, sem staðsettur er fyrir ofan þéttbýlið. Auk þess var allt tréverk í teigarömmum fúavarið. Teigarnir og „körfurnar“ eru níu talsins, rétt eins og á hefðbundnum golfvelli, og hafa körfurnar númer, frá einum og uppí níu. Þessar framkvæmdir koma til með að bæta upplifun þeirra sem spila á vellinum mikið, þar sem búið er að afmarka upphaf hverrar brautar betur og skerpa á ásýnd vallarins.

Áður var búið að setja niður mottur og smíða ramma umhverfis, sem eru teigarnir sjálfir. Í ár tóku nemendur í Grunnskóla Grundarfjarðar að sér að brenna út númer hverrar brautar á brautarmerkingarnar og sjálfboðaliðar frá SEEDS, sem nú eru hér á vegum bæjarins, sáu um að fúaverja staurana og rammana.

Hvetjum við alla til þess að gera sér ferð upp á frisbígolfvöll og prófa þessa skemmtilegu afþreyingu. Hægt er að fá frisbídiska lánaða í sundlauginni.

Hér má lesa nánar um þessa skemmtilegu íþrótt.