- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Nýjar loftmyndir fyrir þéttbýli Grundarfjarðar
Á föstudaginn síðasta mátti sjá veglega dróna (flygildi) sveima um loftin yfir bænum. Þar var á ferðinni fyrirtækið Svarmi sem sérhæfir sig í loftmyndatöku í hárri upplausn. Svarmi var við myndatökur fyrir Grundarfjarðarbæ, en myndirnar munu gera okkur kleift að skoða og greina náttúrulegt og manngert umhverfi okkar með mikilli nákvæmni af þessum myndum. Síðast voru teknar loftmyndir fyrir Grundarfjarðarbæ árið 2021. Góð gögn eru hverju samfélagi mikilvæg og hér stígur bærinn enn á ný stórt skref fram á við í þeim efnum.
Að undangenginni verðkönnun hafa Grundarfjarðarbær og Svarmi ehf. nú skrifað undir samstarfssamning um nýjar loftmyndir næstu sex árin eða út árið 2030. Þessar loftmyndatökur eru hluti af ICEWATER-verkefninu sem Grundarfjarðarbær tekur þátt í, en verkefnið felst í að rannsaka betur vatnafar í þéttbýlinu og innleiða blágrænar ofanvatnslausnir. Bærinn fékk veglegan styrk til verkefnisins, frá Evrópusambandinu, upp á 2,3 milljónir Evra, eins og sagt var frá í frétt í desember 2024.
Meginmarkmiðið með samstarfssamningnum er að nýta loftmyndirnar til að kortleggja vatnasvið bæjarins með ítarlegu yfirborðshæðarlíkani sem fengið er með gögnum frá Svarma og að vakta breytingar í gróðurfari næstu sex árin. Nýju loftmyndirnar verða einnig felldar inn í kortavefsjá bæjarins, þannig að allir geta séð hve skörp hún er. Eldri loftmyndirnar voru með 5 cm nákvæmni en þessar nýju eru með 3 cm upplausn. Loftmyndir eru einnig nýttar í tengslum við framkvæmdir og ýmis skipulagsverkefni sem bærinn vinnur að, en góð loftmynd er mikilvægt tæki fyrir alla sem koma að slíkum verkefnum.