Í tilefni af Degi íslenskrar tungu var nýtt bókasafn formlega opnað í Grunnskóla Grundarfjarðar. Nemendur úr öllum bekkjum komu á safnið og fögnuðu því að nú geta allir notið þess að taka sér bækur og eiga notalega stund við lestur og nám. Sunna Njálsdóttir forstöðumaður bóksafns Grundarfjarðar notaði tækifærið og tilkynnti hverjir hefðu verið dregnir út í vali á bestu barnabókunum ársins 2013 í Grundarfirði. Dregið var úr innsendum seðlum og fengu Daniel Emmanuel K. Kwakye í fyrsta bekk og Anita Sól Valdimarsdóttir í 6. bekk glaðning fyrir þátttöku. Þakkaði hún öllum sem tóku þátt.
 

Grunnskólinn hefur í gegnum tíðina átt sitt bókasafn en fyrir 12 árum var það sameinað almenningsbókasafninu. Þessi ár hafa nemendur farið úr skóla á almenningsbókasafnið og gekk það í alla staði vel þrátt fyrir að veðrið var ekki alltaf það besta.  Það er okkar von að nemendur verði duglegir að nýta sér safnið við nám og störf.