- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Skipulagslýsing fyrir Deiliskipulag Grundarfjarðarhafnar
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti á 271. fundi sínum 9. september sl. að leggja til við bæjarstjórn að auglýsa skipulagslýsingu fyrir nýtt Deiliskipulag Grundarfjarðarhafnar í Grundarfirði í samræmi við 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þetta var svo samþykkt af bæjarstjórn á 301. fundi 11. september 2025.
Svæðið sem til stendur að deiliskipuleggja er 23,7 hektarar og nær yfir Norðurgarð, Miðgarð og Suðurgarð hafnarinnar, auk aðliggjandi landsvæðis, en einnig er gert ráð fyrir stækkun hafnarsvæðisins með landfyllingu og nýrri vegtengingu við þjóðveg 54.
Sjávarútvegur hefur í gegnum tíðina verið aðalatvinnugreinin í Grundarfirði og Grundarfjarðarhöfn er hjarta þeirrar starfsemi. Höfnin er umsvifamikil og hefur starfsemi henni tengd þróast hratt á síðustu árum, bæði vegna fiskveiða og ferðaþjónustu. Komum skemmtiferðaskipa á sumrin hefur fjölgað hratt síðustu ár, en frá maí til september árið 2025 komu 77 skemmtiferðaskip í Grundarfjarðarhöfn.
Eftirspurn eftir lóðum við höfnina hefur aukist og einnig vantar betri vegtengingu fyrir þungaumferð frá höfninni að þjóðvegi og iðnaðarsvæði við Kverná. Fyrirhugað deiliskipulag gerir ráð fyrir nýjum 100 m viðlegukanti og um 3,5 hekturum undir nýjar lóðir ásamt rúmgóðu vegstæði fyrir nýjan stofnveg að höfninni. Þá verður hugað að betri aðstöðu fyrir ferðamenn við höfnina.
Með nýrri vegtengingu er einnig létt á þungaumferð í gegnum þéttbýlið austanvert, sem bætir öryggi, ekki síst fyrir gangandi vegfarendur. Þá eru komnar fram nýjar áskoranir á hafnarsvæðinu sjálfu varðandi flæði ólíkra hópa um hafnarsvæðið, þar sem gríðarlega mikilvægt er að tryggja öryggi gangandi vegfarenda samhliða þungri hafnarumferð.
Lengi hefur verið áformað að stækka hafnarsvæði Grundarfjarðarhafnar með landfyllingu til að auka rými fyrir hafnarstarfsemi, sbr. eldri aðalskipulagsáætlanir fyrir bæinn. Vegagerðin hefur unnið forhönnun að útfærslu landfyllingar með nýrri vegtengingu og bryggjukanti. Einnig er gert ráð fyrir stækkun hafnartorgsins við hafnarvogina með smærri landfyllingu.
Deiliskipulaginu er ætlað að koma til móts við þessar áskoranir með því að skýra línur, bæta flæði og tryggja öryggi, auk þess að skapa aukið rými fyrir hafntengda starfsemi.
Hér er sett fram skipulagslýsing í samræmi við 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga, sem er fyrsta skref við gerð nýs deiliskipulags og er með lýsingunni verið að upplýsa almenning og hagsmunaaðila um skipulagsvinnuna framundan.
Skipulagslýsing þessi er einnig auglýst í Skipulagsgátt Skipulagsstofnunar https://skipulagsgatt.is/issues/2025/1420 - hún liggur einnig frammi útprentuð til sýnis í Ráðhúsi Grundafjarðarbæjar og á bókasafni bæjarins í Sögumiðstöðinni, Grundargötu 35.
Lýsingin er auglýst á tímabilinu 14. – 31. október 2025. Ábendingar og athugasemdir við lýsinguna skulu berast í síðasta lagi 31. október 2025 í gegnum Skipulagsgátt Skipulagsstofnunar.
Grundarfirði, 14. október 2025,
Sigurður Valur Ásbjarnarson, skipulagsfulltrúi Grundarfjarðarbæjar