- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Skipulagslýsing fyrir gerð deiliskipulags miðbæjarreits við Grundargötu, Hrannarstíg og Hamrahlíð.
Á fundi sínum 11. september 2025 samþykkti bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar að auglýsa skipulagslýsingu vegna nýs deiliskipulags fyrir miðbæjarreit í Grundarfirði í samræmi við 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Skipulag á reitnum er liður í því að framfylgja stefnu Aðalskipulags Grundarfjarðar 2019-2039 um að miðbærinn skuli vera samkomustaður þar sem fólk hittist í daglegum erindum og til að njóta samveru, auk þess að vera helsti viðkomu- og móttökustaður ferðafólks í bænum.
Vegna miðlægrar staðsetningar reitsins eru tækifæri til að byggja þar upp blandaða byggð íbúða og miðbæjarstarfsemi, sem yrði fyrst og fremst á jarðhæð. Því ákvað Grundarfjarðarbær að sameina lóðirnar í eina stóra lóð og bjóða út hönnun og uppbyggingu á henni í útboði, sem fór fram í byrjun sumars 2025. Gerð var breyting á Aðalskipulagi Grundarfjarðar 2019-2039, sem nú bíður staðfestingar, til þess að heimila hærri byggingar (3 hæðir með möguleika á inndreginni 4. hæð) en áður voru heimilaðar (1-2 hæðir) á reitnum.
Deiliskipulagssvæðið afmarkast af Grundargötu til norðurs, Hrannarstíg til vesturs, Hamrahlíð til suðurs og lóðarmörkum til austurs. Um er að ræða fjórar samstæðar lóðir (Grundargötu 31 og 33 og Hamrahlíð 6 og 8) sem staðsettar eru á mikilvægum krossgötum í miðju þéttbýlis Grundarfjarðarbæjar. Göturými í kringum lóðirnar verða innan deiliskipulagsmarkanna og er gert ráð fyrir að þau verði endurhönnuð.
Hér er sett fram skipulagslýsing í samræmi við 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga, sem er fyrsta skref við gerð nýs deiliskipulags og er ætlað að upplýsa almenning og hagsmunaaðila um skipulagsvinnuna framundan.
Skipulagslýsing þessi er einnig auglýst í skipulagsgátt Skipulagsstofnunar https://skipulagsgatt.is/issues/2025/1359 , og er til sýnis útprentuð í Ráðhúsinu, á bæjarskrifstofu Grundarfjarðarbæjar.
Lýsingin er auglýst á tímabilinu 30. september – 28. október 2025. Ábendingar og athugasemdir við lýsinguna skulu berast í síðasta lagi 28. október 2025 í gegnum Skipulagsgátt Skipulagsstofnunar.
Grundarfirði, 30. september 2025,
Sigurður Valur Ásbjarnarson, skipulagsfulltrúi Grundarfjarðarbæjar