Nýtt skip bættist í flota Grundfirðinga í dag þegar Siglunes SH 22 sigldi í nýja heimahöfn.

 

Skipið er gert út af fyrirtækinu Tanga í eigu fjölskyldu Helgu Þóru Árnadóttur, ekkju Hjálmars heitins Gunnarssonar. Fyrir eiga þau skipið Haukaberg SH 20. 

Siglunesið var smíðað á Akranesi árið 1971. Skipið hefur alla tíð heitið Danski Pétur og verið gert út frá Vestmannaeyjum. Það er 187 brúttó tonn og 27 metrar að lengd.

Siglunesið er systurskip Haukabergsins en var breytt árið 1991. Sett var á það skutdráttur og ný brú og skipt um vél í því, sett öflug Alfa-vél, 990 hestöfl, með mikinn togkraft m.v. þessa stærð skipa, eða 14,4 tonna kraft.

Þetta er þriðja skipið sem ber nafnið Siglunes í eigu fjölskyldu Helgu Þóru.  Fyrsta Siglunesið var keypt 1. mars 1968, annað Siglunesið í röðinni var nýsmíði frá Akranesi árið 1970.

Siglunesið mun fara á rækjuveiðar upp úr næstu mánaðamótum og verður þá Haukaberginu lagt um einhvern tíma.

Eigendum eru færðar árnaðaróskir bæjarstjórnar og hafnarstjórnar, með ósk um farsæld þeim og áhöfn skipsins til handa.