Út er komið nýtt og glæsilegt skólablað nemenda Grunnskóla Grundarfjarðar! 

Um er að ræða 2. tbl. 2024, en fyrsta tölublað skólaársins 2024-25 kom út sl. haust.

Það eru nemendur í 6.-7. bekk sem eiga heiðurinn að útgáfu blaðsins, í gegnum nýjan list- og verkgreinaáfanga. List- og verkgreinarnar eru smíði, myndmennt, heimilisfræði, leiklist og textílmennt, en margmiðlun er bætt við í ár sem sjötta verklega faginu á móti hinum greinunum. Nemendum er skipt í þrjá hópa og eru krakkarnir 12 vikur í senn í áfanganum. Hugmynd um að gera skólablað, í áfanga um margmiðlun, vaknaði hjá kennaranum og var vel tekið af nemendum. Við slíkt verkefni nýta nemendurnir marga þætti námsins og það reynir á margvíslega færni. 

Fyrsti hópurinn fékk val um að gera skólablaðið í forritinu Canva eða sem vefsíðu. Þau völdu að gera það sem blað í Canva og fundu sér gott form á það. Áður en farið var af stað í hugmyndavinnu um efni skólablaðsins, leituðu nemendur að fyrirmyndum í öðrum skólablöðum og hvaða efni þau hefðu að geyma. Þannig fengu þau hugmyndir að því hvað þau gætu gert í sínu blaði.

Við undirbúninginn settust þau niður og bjuggu til "hugarkort" þar sem hugmyndum er raðað upp og þær tengdar saman. Síðan var komið að því að setja hugmyndirnar í framkvæmd, hverja fyrir sig, og skipta með sér verkum. Krakkarnir tóku viðtöl, spurðu spurninga, fundu til mataruppskriftir og unnu öll saman í Canva skjalinu. Kennarinn fór reglulega yfir skjalið og setti inn ábendingar um hvað þau þyrftu að færa til betri vegar, sem þau unnu síðan úr.

Hópur númer tvö hefur nú gefið út sitt blað, 2. tölublað, en ætlunin er að þrjú tölublöð komi út á skólaárinu 2024-2025, eitt blað sem hver hópur vinnur. 

Blaðið hafa þau prentað út í þó nokkrum eintökum, en auk þess er hægt að finna vefútgáfu blaðsins á vef skólans, www.grundo.is  (hlekkur kemur hér inn síðar)

Við óskum nemendahópunum tveimur til hamingju með útgáfu blaðsins, 1. og 2. tbl., og hlökkum til þriðja blaðsins! 

Fréttin er byggð á upplýsingum sem Sigurrós Sandra Bergvinsdóttir kennari tók saman. 

Skólablað 2024 kemur út

Útgefendur 2. tölublaðs skólablaðsins 2024-2025 þegar þeir afhentu bæjarstjóra eintak af blaðinu
á útgáfudegi 6. febrúar 2025.