Séð yfir hið nýja hverfi

Á árinu 2003 var unninn fyrsti áfangi í gatnagerð í Ölkeldudal, sem er svæði afmarkað af grunnskóla og íþróttahúsi í austri, dvalarheimilinu Fellaskjóli að norðanverðu og íbúðabyggð á Hjaltalínsholti í vestri. Nýr vegur, Ölkelduvegur, tengir saman þessa staði og mannvirki. Framkvæmdum við gatnagerð og lagnir var fram haldið á þessu ári, en með þeim urðu til 13 byggingarlóðir fyrir raðhús, 4 lóðir eru ætlaðar undir einbýlishúsabyggingar syðst á svæðinu, auk þess sem parhús verður á einni lóð. Á öllum lóðunum er heimilt að byggja eins til tveggja hæða byggingar.

 

Fyrsta byggingin á svæðinu var 7 íbúða raðhús fyrir eldri borgara, sem Trésmiðja Guðmundar Friðrikssonar í Grundarfirði byggði fyrir Grundarfjarðarbæ. Þær íbúðir standa við Hrannarstíg, nr. 28-40, og voru afhentar eigendum í áföngum á þessu ári. Bæjarstjórn hefur ennfremur, í sama skyni, sótt um og fengið úthlutað lóð undir fleiri raðhús, sunnan megin Ölkelduvegarins. Og eins og sagt var frá hér á heimasíðunni hefur Trésmiðja Guðmundar hafið byggingu á parhúsi á lóðum nr. 25-27.

Ölkelduvegur milli Hjaltalínsholts og Borgarbrautar, tenging við Hrannarstíg. Íbúðir fyrir eldri borgara á vinstri hönd, grunnskóli og íþróttahús fjærst, parhús í byggingu á hægri hönd

 

Samið var við RARIK um uppsetningu ljósastaura á svæðinu og var upphaflega áætlað að því verki yrði lokið nú í desember. Verkið hefur tafist en búist er við að RARIK muni lýsa upp veginn í janúar n.k. Þá verður ennfremur bætt við lýsingu efst á Borgarbraut, við grunnskóla og íþróttahús, auk þess sem settir verða upp ljósastaurar við gangstíg milli kirkjunnar og Dvalarheimilis/íbúða eldri borgara við Hrannarstíg 18.

 

Ölkeldudalur og –vegur rekja nafngiftir sínar til ölkeldunnar, sem er að finna þarna undir brekkunum. Vatnið í henni er yfirleitt gott til drykkjar og ungir Grundfirðingar hafa stundað það sl. áratugi að sækja vatn á flöskur úr ölkeldunni og drekka sér til hressingar. Það eina sem þurfti að passa var að bévítans brunnklukkurnar væru ekkert að flækjast fyrir, en þær áttu á árum áður bústaði í dýjum í nágrenninu, sem nú eru reyndar flest horfin af þessu svæði.