Opið bréf til hundaeigenda í Grundarfirði,

- hundahreinsun þann 16. desember n.k.

 

Að marggefnu tilefni vil ég minna á nokkur mikilvæg atriði sem hundaeigendum ber að hafa í huga.

Í Grundarfirði er í gildi “samþykkt um hundahald í Grundarfirði” sem staðfest er af Umhverfisráðuneytinu þann 7. maí 2002.  Þar kemur ótvírætt fram að leyfi þarf til að fá að halda hund í þéttbýli Grundarfjarðar.

Leyfið skal vera skráð á lögráða einstakling og er óheimilt að framselja það.

Þetta þýðir með öðrum orðum að hundaeigenda er skylt að skrá hund strax við fæðingu eða þegar hundur er tekinn til dvalar í lengri eða skemmri tíma.

Jafnframt skal greiða skráningargjald af viðkomandi hundi frá fyrsta skráningardegi, eins og kveðið er á um í “gjaldskrá fyrir hundahald í Grundarfirði” sem samþykkt var í bæjarstjórn Grundarfjarðar þann 16.01.2003.

Ef  hundi er fargað eða hann af einhverjum ástæðum er ekki lengur í umsjá leyfishafa skulu slíkar breytingar tilkynntar með skriflegum hætti til bæjarskrifstofu Grundarfjarðar og fæst þá endurgreitt sá hluti hundaleyfisgjaldsins sem eftir stendur.

Í samþykkt um hundahald í Grundarfirði segir að hundar skuli færðir árlega til hreinsunar.

 

Þann 16. desember næstkomandi verður þessi árlega hreinsun í áhaldahúsi Grundarfjarðar.  Þar ber hundaeigendum að mæta með hunda sína (hvort sem vitjað hefur verið dýralæknis á síðustu 12 mánuðum eða ekki).

 

Að undanförnu hefur tölvert borið á því að lausir hundar hafi vafrað um þéttbýlið án vitundar eigenda sinna og þarf ekki að tíunda það frekar hér að slíkt er óheimilt sbr. samþykkt um hundahald í Grundarfirði.

Í 2. grein samþykktarinnar segir m.a; 

Eigandi hunds er ábyrgur fyrir því að hundur hans raski ekki ró manna.  Þá skal hundurinn ekki valda hættu, óþægindum eða óþrifnaði.  Hundurinn skal aldrei ganga laus á almannafæri. Hann skal vera í taumi og í fylgd aðila sem hefur fullt vald yfir honum.

Ég vil ítreka það hér að komið hafa upp tilvik hér í Grundarfirði þar sem hundar hafa valdið mikilli hræðslu hjá einstaklingum og óvíst er hvort slík geðshræring grær nokkurn tíma um heilt.

 

Nýtt skráningarkerfi fyrir hunda verður tekið upp frá og með næstu hundahreinsun þann 16. desember næstkomandi.  Um er að ræða merki þar sem fram kemur m.a. nafn hundsins og númer ásamt símanúmeri eiganda.  Eiganda er skylt samkvæmt 3. grein í samþykkt um hundahald í Grundarfirði að hafa merkið ætíð fest um háls hundsins.

 

Bændum á lögbýlum er heimilt að hafa “þarfahunda” án greiðslu leyfisgjalds.  Ennfremur er heimilt að fella niður skráningargjöld ef um er að ræða hunda sem þjálfaðir eru til björgunarstarfa eða eru til aðstoðar eigendum sínum sem samkvæmt læknisvottorði þurfa á slíkum hundi að halda.

 

Að endingu vil ég þakka góð samskifti við hundaeigendur sem langflestir eru til fyrirmyndar og vona ég að þetta greinarkorn verði til þess að taka af öll vafaatriði um hvaða reglum hundaleifishafi ber að fylgja.

Kveðja frá áhaldahúsi Grundarfjarðar,