Tilkynning frá gestavinnustofunni Artak350:

OPIN VINNUSTOFA / OPEN STUDIO ALIX PHILIPPE - í Gestavinnustofu Artak350 að Grundargötu 26 í Grundarfirði

Það er óhætt að segja að fáir erlendir listamenn hafi getað notið dvalar í gestavinnustofum landsins undanfarið og hafa margar gestavinnustofur staðið auðar fyrir vikið. En sem betur fer hafa nokkrir listamenn komist til okkar og er ein af þeim hún Alix Philippe. Hún er nú að ljúka dvöl sinni sem átti að vera einn mánuður í október, en vegna erfliðleika með flug og lokanir í Bretlandi þar sem hún er búsett, varð það úr að hún fer ekki heim fyrr en um miðjan desember.

Það er mikill fengur í því fyrir lítið bæjarfélag eins og Grundarfjörð að hafa gestavinnustofu sem tekur á móti alþjóðlegum listamönnum. Einn af listamönnum staðarins, hann Lúðvík Karlsson, segir það mikilvægt að fá tækifæri til að hitta aðra listamenn og ná spjalli og að spegla sig í því sem aðrir eru að gera. Listamennirnir setja svip sinn á bæjarlífið og vekja forvitni fólks á því hvaðan þeir koma og hvað þeir eru að sýsla. Alix mun opna dyrnar á gestavinnustofunni, mánudaginn 14. desember. Kl. 17.00-21.00. Hún sýnir þau verk sem hún hefur málað í Grundarfirði síðastliðnar vikur og mánuði. Spennandi og falleg sýning, margir gætu séð fólk sem það þekkir eða kannast við eða jafnvel séð sjálfa sig á striganum.

Allir eru hjartanlega velkomnir. Farið verður í einu og öllu eftir sóttvarnarlögum.