Í gær hófst öryggisvika sjómanna, sem haldin er í annað sinn. Vikan er haldin í tengslum við Alþjóðasiglinga-daginn 26. september og lýkur þann 1. október n.k. Þema öryggisvikunnar nú er „Forvarnir auka öryggi“.

Þann 23. september sl. undirritaði Sturla Böðvarsson samgönguráðherra þjónustusamning á milli Slysavarnaskóla sjómanna og samgöngu-ráðuneytisins við athöfn á Gufuskálum. Slysavarnaskóli sjómanna hefur fyrir löngu sannað ágæti sitt og í ræðu samgönguráðherra kom fram að hann telur að öryggi sjófarenda verði alltaf best tryggt með góðri og stöðugri þjálfun sjómanna og samstilltu átaki stjórnvalda, útgerðar og sjómanna á sviði öryggismála.  

Sjá nánar fréttir á vef samgönguráðuneytisins um undirritun samningsins á Gufuskálum og um öryggisviku sjómanna.

 

Á leið sinni um Snæfellsnes heimsótti ráðherra Grundarfjarðarhöfn, ásamt Ragnhildi Hjaltadóttur ráðuneytisstjóra og fleiri góðum gestum, þ. á m. forstjóra Siglingastofnunar og skólastjóra Slysavarnaskóla sjómanna. Heimamenn tóku á móti gestunum og fræddu þá um aðstæður í Grundarfjarðarhöfn og um helstu verkefni hafnarstjórnar, þ. á m. um öryggisáætlun hafnarinnar og innra eftirlit með öryggismálum á hafnarsvæðinu.

Myndin frá heimsókninni hér að neðan er sótt á heimasíðu Sturlu Böðvarssonar.

Samgönguráðherra ásamt fylgdarfólki, bæjarfulltrúar Grundarfjarðarbæjar og hafnarvörður Grundarfjarðarhafnar