Pálmi er nýr forstöðumaður menningar- og markaðsmála hjá Grundarfjarðarbæ

Pálmi Jóhannsson hefur verið ráðinn forstöðumaður menningar- og markaðsmála hjá Grundarfjarðarbæ.

Ráðningin var samþykkt á fundi bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar 8. maí sl. Um er að ræða breytt og að hluta til nýtt starf, sbr. starfslýsingu samþykkta af bæjarstjórn 8. maí 2025.

Pálmi lauk BS-gráðu í ferðamálafræði frá Háskóla Íslands, með markaðs og alþjóðaviðskipti sem aukafag. Veturinn 2011-2012 nam hann einnig markaðsfræði við Erhvervsakademi SydVest í Esbjerg í Danmörku. Hann hefur sótt ýmis námskeið tengd gagnasöfnun og tölfræði. Pálmi er einnig með KSÍ C þjálfaragráðu í knattspyrnuþjálfun.

Síðan 2020 hefur Pálmi unnið hjá Sýn hf., fyrst sem sölufulltrúi en undanfarin fjögur ár sem sérfræðingur í tekjueftirliti og reikningagerð. Í því felst m.a. rýni á tölfræðiþætti, framsetning uppgjörs og annara gagna, gerð og eftirfylgni umbótaáætlana. Samhliða starfi sínu hjá Sýn hefur hann í tvö ár verið knattspyrnuþjálfari yngri flokka hjá Ungmennafélagi Grundarfjarðar og Snæfellsnessamstarfinu. Hann er einnig hlutastarfandi slökkviliðsmaður, meðlimur í Björgunarsveitinni Klakki og virkur í íþróttastarfi. Árin 2016-2020 vann hann hjá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum, fyrst við sölu og þjónustu og samskipti við viðskiptavini en síðan sem tekjustjóri, þar sem hann kom að meðhöndlun tölfræðigagna, var tengiliður við erlenda söluaðila, skrifaði ferðalýsingar og sótti ferðaráðstefnur erlendis.

Pálmi er uppalinn í Reykjavík, en hefur búið í Grundarfirði í hátt á fjórða ár ásamt fjölskyldu sinni. Héðan hefur hann sinnt starfi sínu hjá Sýn að mestu í fjarvinnu.

Starfssvið

Starf forstöðumanns menningar- og markaðsmála felur í sér ábyrgð á menningar- og markaðsmálum á vegum Grundarfjarðarbæjar og Grundarfjarðarhafnar. Forstöðumaður hefur umsjón með markaðs- og áfangastaðamálum bæjarins, en í því felst m.a. að framfylgja stefnu bæjarins um uppbyggingu Grundarfjarðar sem áhugaverðs áningarstaðar. Hann hefur umsjón með markaðs- og miðlunarstefnu bæjar og hafnar, gerð upplýsinga- og söguskilta og annarra merkinga á vegum bæjarins, og annast samskipti við þjónustuaðila í og utan sveitarfélagsins við þróunar- og markaðsmál, o.fl. Hann hefur umsjón með menningarmálum, er starfsmaður menningarnefndar og vinnur með henni að menningar- og markaðstengdum málum. Forstöðumaður hefur yfirumsjón með menningarhúsum bæjarins, þ.e. samkomuhúsi og Sögumiðstöð, og starfsemi þeirra, en einnig með samvinnurýminu að Grundargötu 30. Forstöðumaður hefur yfirumsjón með rekstri tjaldsvæðis bæjarins.

Hér má sjá starfslýsinguna.

Pálmi mun hefja störf 20. júní nk. og er hann boðinn hjartanlega velkominn til starfa!