Sl. föstudagskvöld hófst pílagrímsganga á Jónsmessunótt með messu í Setbergskirkju þar sem séra Elínborg Sturludóttir þjónaði fyrir altari og Jón Ásgeir Sigurvinsson guðfræðingur predikaði.  Organisti í messunni var Jóhanna Guðmundsdóttir og kórsöngurinn var í höndum safnaðar.  Að lokinni ljúfri stund í Setbergskirkju kvaddi séra Elínborg hvert og eitt safnaðarbarn með fararblessun. 

 

Göngugarparnir, 41 talsins, héldu svo léttir í lundu til göngu á Klakkinn undir öruggri leiðsögn Halls Pálssonar bónda frá Naustum, sem er umhverfinu síður en svo ókunnugur. Hallur hóf leiðsögnina við Bárarfoss með sögustund og sagði hann að allir þeir sem ólofaðir væru skildu tína sjö gerðir af blómum á leiðinni upp á Klakkinn á Jónsmessunótt og setja svo undir koddann þegar heim væri komið.  Um nóttina myndi svo viðkomandi dreyma verðandi maka sinn.  Ekki fer hér frekari sögum af þeim ólofuðu sem með í för voru í þessari göngu né draumum þeirra. 

 

Veðrið var eins og best er á kosið enda áttum við það kannski inni hjá veðurguðunum eftir síðustu skipulögðu göngu en þá ferðaðist lognið ansi hratt yfir (27m/sek).  Útsýnið var gott, vel sást út á Breiðafjörðinn og inn í Hólm.

 

Þegar upp var komið settust garparnir niður og biðu spenntir eftir óskasteinunum – sem flutu einn af öðrum á miðnætti á Jónsmessunni.

 

Gaman er frá því að segja að aldursforseti göngunnar var Lauga á Hömrum sem gaf þeim yngri hvorki eftir í töltinu upp né niður. 

 

Héraðssamband Snæfellsness- og Hnappadalssýslu hvetur ungmennafélaga til að ganga á Klakkinn og Eyrarfjall í sumar.  Á toppi þessara fjalla eru gestabækur í póstkössum þar sem göngugarpar eru beðnir um að setja nafnið sitt og símanúmer.

 

Næsta skipulagða ganga á vegum HSH verður í þjóðgarðinum Snæfellsjökli sunnudaginn 20. ágúst kl. 14:00.  Þar verður gengið um Djúpalónssand með leiðsögn landvarðar.

 

 

Alda Pálsdóttir

framkv.stj HSH