Þórdís Sigurðardóttir, bókasafns- og upplýsingafræðingur Grunnskóla Grundarfjarðar, hefur veitt nemendum útklippta Pokemon mynd í verðlaun fyrir hverja bók sem þeir ljúka við að lesa. Hún tók upp á þessu í tengslum við Bókasafnsdaginn 8. september síðastliðinn og síðan hefur bóklestur nemenda aukist verulega við skólann.

 

Þórdís segir hugmyndina vissulega hafa verið að fá börnin til að lesa fleiri bækur en hana hafi ekki grunað hversu mikil hvatning Pokemonarnir yrðu. Á köflum hafi hún vart haft undan við að klippa þá út. Börnin fá svo að velja sér stað á bókasafnsveggnum til að festa myndina sína og er veggurinn orðinn heldur betur vandlega skreyttur af nemendum grunnskólans.