Frá vinstri: Kristín, Hulda, Lauga, Guðmunda, Auður, Hildur, Hanne, Eygló,Kristín og Nína.

 

Hugur og hönd starfa saman.

Rauði krossinn þakkar enn á ný sínu frábæra handverksfólki sem lagði á sig mikla vinnu við að útbúa fatnað í ungbarnapakkana. Handverkshópurinn í Grundarfirði hittist nú í haust á föstudögum og vann ötulega við að sauma, prjóna og breyta eldri flíkum í nýjar.

Þegar farið var að setja í pakkana þá komu sendingar frá ungum og gömlum, sá elsti 86 ára. Séu flíkurnar  taldar sem sendar voru frá okkur, lætur nærri að það sé ein flík frá hverjum íbúa bæjarfélagsins. Alls munu 61 barn fá sendingu frá Grundarfirði, með hugheilum óskum um heilsu og betra líf.

Veturnir eru firnakaldir í Hvíta-Rússlandi, frostið fer niður í -20°C og byrja hörkurnar í janúar. Pökkunum mun verða dreift til heimila fyrir munaðarlaus börn og einnig til stofnana fyrir veik og fötluð ungabörn. Einnig munu fátækar fjölskyldur með nýfædd börn, sérstaklega í afskekktum þorpum njóta góðs af okkar störfum.