Í tilefni af opnun útibús ráðgjafarfyrirtækisins Alta í Grundarfirði bauð fyrirtækið til kynningarfundar í Sögumiðstöðinni í hádeginu í gær. Verkefnisstjóri Alta í Grundarfirði er Sigurborg K. Hannesdóttir en framkvæmdastjóri Alta er Halldóra Hreggviðsdóttir. Á meðfylgjandi mynd eru þær stöllur Sigurborg og Halldóra.

  

Alta er framsækið ráðgjafarfyrirtæki sem hefur skapað sér sérstöðu m.a. vegna breiðrar þekkingar og reynslu starfsmanna.  Verkefnin eru margvísleg, t.d. samráðsverkefni af ýmsu tagi, þar á meðal umsjón með íbúaþingum víða um land.  Meðal verkefna á sviði umhverfismála má nefna efnistökumál, mat á umhverfisáhrifum framkvæmda, umhverfisstjórnun fyrirtækja, umhverfismat skipulagsáætlana og Staðardagskrá 21.  Hjá Alta starfa einnig ráðgjafar með reynslu og þekkingu af mannauðsstjórnun og rekstri fyrirtækja, m.a. í nýsköpunarfyrirtækjum á sviði tækni. Þá tekur Alta að sér verkefnisstjórnun í margskonar verkefnum og hafði t.d. umsjón með gerð umsóknar um tilnefningu Þingvalla á Heimsminjaskrá UNESCO.