Á degi íslenskrar tungu 16. nóvember var haldin hin árlega ræðukeppni skólans.   Innan hvers bekkjar á mið- og unglingastigi höfðu farið fram bekkjarkeppnir þar sem tveir hlutskörpustu úr hverjum bekk tóku síðan þátt í lokakeppninni. Ræðuefnið að þessu sinni var: Ég og lífið eftir 20 ár. Dómarar í keppninni voru Ragnheiður Kristjánsdóttir skólaliði og Sunna Njálsdóttir bókasafnsvörður.

Greinilegt var á hugmyndum nemendanna að þeir litu framtíðina björtum augum og komu fram með margar nýstárlegar og skemmtilegar hugmyndir. Einnig var áberandi að allir vildu halda í heiðri góðum og traustum gildum s.s. að eiga góða fjölskyldu og vera hamingjusamur og hlúa vel að umhverfinu.
Það var samdóma álit þeirra sem til heyrðu að nemendurnir allir hefðu staðið sig með mikilli prýði, flutt góðar ræður af öryggi og myndarbrag. Dómnefndin var því ekki öfundsverð að þurfa að gera upp á milli ræðumanna og kvenna. Niðurstaðan varð sú að Kristbjörg Ásta Viðarsdóttir 5. bekk varð hlutskörpust á miðstigi og Sólveig Ásta Bergvinsdóttir í 9. bekk á elsta stigi.