Rafmagn fór af Snæfellsnesi um kl. 21:30 í gærkvöldi þegar 66 kV flutningslína frá Vatnshömrum í Borgarfirði bilaði, straumlaust var einnig á Skógarströnd og Eyja-, Miklaholts- og Kolbeinsstaðahreppi. Lengsta straumleysið var á hluta af Staðarsveitarlínu og Arnarstapa og Hellnum. Díselvélar voru keyrðar í Stykkishólmi, Grundarfirði og Ólafsvík. Skammta þurfti rafmagn í Grundarfirði, Ólafsvík, Hellissandi og Rifi.

Þá var 19 kV dreifkerfi á Snæfellsnesi tengt við dreifilínu frá Glerárskógum um Búðardal og Skógarströnd, einnig framleiddi Múlavirkjun inn á kerfið og Lindarvirkjun um tíma.

Vinnuflokkar Rarik staðsettu bilunina rétt fyrir kl. 05 og hófst viðgerð samstundis, en línan reynist slitin við Skógarnes í Eyja- og Miklaholtshrepp. Viðgerð lauk um kl. 06:55 og komst rafmagn á allt svæðið fljótlega eftir að viðgerð lauk eða rétt upp úr 07:05.

mbl.is