Byggðastofnun hefur sent út til allra sveitarfélaga á landsbyggðinni verkefnislýsingu um framkvæmd og skipulag á samkeppni undir yfirskriftinni ,,Rafrænt samfélag”.

Í inngangi lýsingarinnar segir m.a.;

 

,,Á komandi árum mun þróun búsetu og atvinnulífs á landsbyggðinni að hluta byggjast á því hvernig einstaklingum og fyrirtækjum tekst að hagnýta sér þá möguleika sem felast í upplýsinga- og fjarskiptatækni. .... Meginhugmynd verkefnisins er að hrinda í framkvæmd metnaðarfullum aðgerðum sem hafa það að markmiði að auka nýsköpun í atvinnulífi og bæta afkomu íbúanna, auka menntun og menningarstarfsemi, bæta heilsugæslu og félagslegar aðstæður og efla lýðræðið...”

Boðað er til samkeppni meðal sveitarfélaga um aðgerðir/tillögur sem uppfylla þessi markmið og fleiri sem fram koma í lýsingu verkefnisins.

Samkeppninni er skipt upp í þrjá áfanga. Sá fyrsti er forval, þá verða 4-8 sveitarfélög valin úr hópi umsækjenda og þeim boðið að taka þátt í sjálfri samkeppninni sem er áfangi númer tvö. Þessi sveitarfélög keppa þar um tilnefningu sem rafrænt sveitarfélag en 2-4 sveitarfélög verða valin til þeirra úrslita. Þriðji áfangi er svo þriggja ára framkvæmdatími þar sem sveitarfélögin innleiða áætlanir sínar um rafrænt samfélag, en til þess munu þau fá fjárstyrki. Í stefnu í byggðamálum 2002-2005 segir nefnilega að veita skuli 30-40 milljónum kr. á ári í 3-4 ár (samtals 90-160 millj. kr.) úr ríkissjóði til verkefnisins í heild.

 

Skilafrestur umsókna vegna þátttöku í forvali er 4. mars n.k.

Grundarfjarðarbær ákvað fyrir löngu að vera með í verkefninu og sækja um, enda var bæjarstjórn þegar búin að hleypa af stokkunum verkefni sem nefndist ,,Tæknibærinn Grundarfjörður” og sagt hefur verið frá í bæjardagbók.

 

Nokkur vinna hefur verið lögð í undirbúning að gerð umsóknar og stendur enn yfir. Sagt var frá því í bæjardagbókinni 11. janúar sl. að vinnuhópar hefðu verið skipaðir til undirbúnings og hafa þeir verið að funda að undanförnu.

 

Hóparnir fjalla um atvinnumál, menntun og menningu og stjórnsýslu. Fullt af góðum hugmyndum hafa komið fram á fundum hópanna, en ekki er hægt að segja frá þeim hér þar sem við viljum ekki upplýsa keppinauta okkar í samkeppninni um ,,trompin” okkar. Meira síðar.....