- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Framkvæmdastjórn Svæðisgarðsins Snæfellsness hefur ákveðið að ráða Ragnhildi Sigurðardóttur, umhverfisfræðing, framkvæmdastjóra hins nýstofnaða Svæðisgarðs.
Alls bárust 23 umsóknir um starfið.
Ragnhildur býr á Álftavatni í Staðarsveit, Snæfellsbæ, með eiginmanni og þremur börnum þar sem þau starfrækja sauðfjárbú. Hún er umhverfisfræðingur frá Landbúnaðarháskóla Noregs og hefur sl. 14 ár gegnt starfi lektors við umhverfisdeild Landbúnaðarháskóla Íslands. Ragnhildur hefur stýrt margvíslegum þróunar- og nýsköpunarverkefnum í erlendu sem innlendu samstarfi, tengdum fræðslu og umhverfismálum, atvinnuuppbyggingu í dreifbýli, menningarlandslagi o.fl.
Svæðisgarðurinn Snæfellsnes var stofnaður þann 4.4.2014 af sveitarfélögum og félagasamtökum í atvinnulífi á Snæfellsnesi. Hlutverk hans er að vera vettvangur fjölþætts samstarfs með áherslu á að nýta sérstöðu svæðisins við uppbyggingu fjölbreyttara atvinnulífs og þjónustu.
Framkvæmdastjóri mun hafa umsjón með uppbyggingu Svæðisgarðs, leiða mótun og daglegt starf. Hlutverk hans er að vera tengiliður milli byggða, stofnana, félaga og fyrirtækja á Snæfellsnesi, einstaklinga og hugmynda.
Ragnhildur verður í hálfu starfi í september, en frá og með 1. október nk. kemur hún til starfa að fullu. Gerð verður nánari grein fyrir starfsemi og fyrstu verkefnum Svæðisgarðs innan tíðar.
Framkvæmdastjórn og aðilar Svæðisgarðsins Snæfellsness bjóða Ragnhildi velkomna til starfa og vænta góðs samstarfs við hana.