Mynd: Tómas Freyr Kristjánsson
Mynd: Tómas Freyr Kristjánsson

Rammahluti fyrir blágrænar ofanvatnslausnir og almenningsrými

Bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum þann 11. september sl. að auglýsa skipulagslýsingu fyrir gerð blágræns ofanvatnsskipulags í Grundarfirði í samræmi við 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Þetta ofanvatnsskipulags verður rammahluti Aðalskipulags Grundarfjarðar 2019-2039 og um leið stefnumótun fyrir þróun almenningsrýma í bænum. Verkefnið er liður í framfylgd stefnu aðalskipulagsins um innleiðingu blágrænna ofanvatnslausna í öllum bænum m.a. til að auka seiglu bæjarins gagnvart loftslagsbreytingum.

Grundarfjörður fékk styrk úr stóru Evrópusambandsverkefni sem nú stendur yfir á Íslandi, sem kallast LIFE-ICEWATER, til þess að framkvæma metnaðarfulla framtíðarsýn bæjarins í loftslagsmálum m.t.t. meðhöndlunar ofanvatns. Markmiðið er að Grundarfjörður verði fyrsti bærinn á landinu til að innleiða blágræna innviði í öllum bænum og því er rammahluti aðalskipulags fyrir blágrænar ofanvatnslausnir lykilverkefni í innleiðingu LIFE-ICEWATER verkefnisins í bænum.

Með rammahlutanum er mótuð stefna um tilhögun fráveitu og meðferðar ofanvatns í allri byggðinni til þess að tryggja markvissa innleiðingu og uppbyggingu blágrænna innviða og almenningsrýma í Grundarfjarðarbæ. Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að fara í gerð rammahlutans á fundi þann 20. ágúst sl. og fól verkefnisstjóra skipulags- og umhverfismála, sem ráðinn var til þess að hafa yfirumsjón með LIFE-ICEWATER verkefninu í bænum, að vinna áfram að málinu í samráði við skipulagsfulltrúa og aðra starfsmenn bæjarins.

Rammahlutinn mun leggja línurnar fyrir skipulag og framkvæmdir í almenningsrýmum bæjarins, með bindandi skipulagsákvæðum sem nauðsynleg eru fyrir skilvirka meðhöndlun ofanvatns. Markmiðið er að flétta blágræna innviði sem geta tekið við og veitt ofanvatni á yfirborði saman við almenningsrými og aðra græna innviði Grundarfjarðarbæjar. Þetta mun gera bæinn grænni, meira aðlaðandi og þolnari gagnvart loftslagsbreytingum, auk þess sem mengun er hreinsuð úr ofanvatninu áður en það rennur út í sjó.

Hér er sett fram skipulagslýsing í samræmi við 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga, sem er fyrsta skref við gerð nýs skipulags og er ætlað að upplýsa almenning og hagsmunaaðila um skipulagsvinnuna framundan.

Skipulagslýsing þessi er einnig auglýst í skipulagsgátt Skipulagsstofnunar https://skipulagsgatt.is/issues/2025/1370 og er til sýnis útprentuð í Ráðhúsinu og  í Sögumiðstöðinni. 

Lýsingin er auglýst á tímabilinu 2. – 30. október 2025. Ábendingar og athugasemdir við lýsinguna skulu berast í síðasta lagi 30. október 2025 í gegnum Skipulagsgátt Skipulagsstofnunar. 

 

Grundarfirði, 2. október 2025, 

Sigurður Valur Ásbjarnarson, skipulagsfulltrúi Grundarfjarðarbæjar