Það er komið vor í loftið og vaskir sjálfboðaliðar Rauðakrossins í Grundarfirði pakka saman verkefnum eftir vetrarönnina.

 

Unnið hefur verið hörðum höndum við að undirbúa ungbarnapakka sem munu fara til Hvíta-Rússlands í fyllingu tímans. Stór hópur hefur hittst í Sögumiðstöðinni einn dag í viku auk þess sem fjölmargir eru heima og prjóna og sauma fatnað fyrir ungabörnin.

 

Þetta verkefni er á dagskrá hjá fjölmörgum Rauða kross deildum út um allt Ísland en aðalstöðvararnar senda síðan árlega um 2000 pakka með fyrirfram ákveðnu magni í hverjum poka.

Til þess að gera þetta verkefni að veruleika, skiptir mestu máli allar þær gjafir sem berast af barnafötum, rúmfötum, stórum fötum sem við sníðum upp úr og saumum buxur og peysur. Nú vantar okkur aðallega handklæði og samfellur.

Ótrúlega höfðingjalegar gjafir bárust okkur frá Saumastofunni á Hvammstanga, sem eru nú orðnar að tæplega 100 ungbarnapeysum, auk fjölda af húfum og sokkum. Henson færði okkur einnig efnisstranga í buxur sem hafa einnig orðið að fjölmörgum slíkum. 

Hér með sendum við þeim okkar bestu Rauða kross kveðjur og þakklæti,  ásamt til allra annarra velunnara.