Sjávarútvegsráðuneytið hefur staðfest eftirfarandi reglur bæjarstjórnar Grundarfjarðar um úthlutun byggðakvóta og hafa þær verið birtar á heimasíðu ráðuneytisins.

 

1. Fjórðungi byggðakvótans (34,5 þígt.) verði úthlutað þannig:

Að úthluta megi eftir umsóknum til útgerða aflamarksskipa sem hafa lögheimili útgerðar og útgerðarstjórnar í Grundarfirði, á fiskiskip sem þaðan eru gerð út, í hlutfalli við landaðan afla í Grundarfirði á síðasta fiskveiðiári 2003/2004. Við úthlutun skal heildaraflamark einstakra fiskiskipa ekki aukast um meira en 100%, miðað við úthlutun í upphafi fiskveiðiárs 2004/2005 og ekkert fiskiskip skal hljóta meira en 15 þorskígildislestir miðað við óslægðan fisk. Komi minna en 100 þorskígildiskíló í hlut einhvers fiskiskips, samkvæmt framangreindum reglum, fellur úthlutun til þess fiskiskips niður og skiptist hlutur þess milli annarra fiskiskipa frá Grundarfirði. Skilyrði er að aflinn skuli unninn í Grundarfirði. Með umsókn fylgi staðfesting um samning við fiskvinnslu á staðnum.

 

2. Þrír fjórðu byggðakvótans (103,5 þígt.) fari til að bæta upp samdrátt vegna banns við skelveiðum á Breiðafirði.

 

Reglur um úthlutun samkvæmt þessum lið:

 

a) Rétt til að sækja um úthlutun byggðakvóta hafa útgerðir sem gera út fiskiskip frá Grundarfirði eða starfrækja þar vinnslu afla og hafa aflahlutdeild í hörpuskel á fiskveiðiárinu 2004/2005.

 

b) Aflinn skal veiddur af skipum gerðum út frá Grundarfirði.

 

c) Umræddur byggðakvóti skal unninn í Grundarfirði, samningur við fiskvinnslu skal fylgja umsókn.

 

d) Byggðakvóta samkvæmt umsóknum er uppfylla ofangreind skilyrði skal úthlutað á milli umsækjenda hlutfallslega miðað við aflahlutdeild í hörpuskel.

 

Allir þeir sem óska eftir að fá úthlutað aflaheimildum samkvæmt ofangreindum skilyrðum, þurfa að sækja um það skriflega til bæjarstjórnar Grundarfjarðar fyrir 11. febrúar 2005.

 

Fyrir hönd bæjarstjórnar Grundarfjarðar,

Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri