Rekstur vatnsveitu Orkuveitunnar í Grundarfirði er kominn í gott horf eftir truflanir snemma vikunnar. Tilmæli til íbúa um að spara vatn eru ekki lengur í gildi þó skynsamleg umgengni sé áfram brýnd fyrir fólki þar eins og annarsstaðar.

Nægt vatn þrátt fyrir þurrkatíð

Óvenjulegt tíðarfar – langvarandi þurrkur og kuldi – lækkaði mjög vatnsborð í borholum á Grund, sem vatn er tekið úr fyrir vatnveituna. Það olli því að loft komst inn á kerfið með tilheyrandi óþægindum. Meðal annars varð vart við grugg í vatninu. Starfsfólk Orkuveitunnar brást við með því að setja sérstaka vakt á vatnsöflunina og var dælingu úr holunum handstýrt til að koma jafnvægi á reksturinn.

Vöktunin leiddi ennfremur í ljós að þrátt fyrir tíðarfarið gefur vatnsbólið nægilegt vatn, en það þarf að stýra vatnstökunni betur þegar svo mikið hefur lækkað í því.

Bættur búnaður við vatnstökuna

Nú er búið að koma upp stýribúnaði við eina dælu af fjórum í borholunum. Fyrirhugað er að auka við þann búnað og gera hann sjálfvirkari en nú er.

Starfsfólk Orkuveitunnar þakkar Grundfirðingum fyrir góð viðbrögð við tilmælum um vatnssparnað og biðst velvirðingar á óþægindum sem þeir urðu fyrir.