Fyrr í vikunni var hleypt af stað nýjum lið, spurningu vikunnar. Spurt var hér á vefnum: Hvaða ár fékk Grundarfjörður kaupstaðarréttindi?

Ekki er hægt að kvarta undan lélegri þátttöku, því 122 höfðu svarað spurningunni á föstudagskvöldi. Tíu völdu svarmöguleika a) árið 1662, 71 völdu svarmöguleika b) og sögðu 1786 og 41 völdu svarmöguleika c) árið 1897. Rétt svar er árið 1786.

Þann 18. ágúst það ár voru með konungsúrskurði stofnaðir sex kaupstaðir, sem vera áttu miðstöðvar verslunar, útgerðar og iðnaðar hver í sínum landshluta og aðsetur embættismanna og opinberra stofnana. Hinir staðirnir voru Ísafjörður, Akureyri, Eskifjörður, Vestmannaeyjar og Reykjavík, sem einn staðanna hélt sínum réttindum, hinir misstu þau síðar. Amtmaður í nýstofnuðu Vesturamti átti að setjast að í Grundarfirði, enda þótti staðurinn heppilegur fyrir kaupstað Vesturlands og höfnin talin sæmilega góð. Grundarlandi var skipt í skika handa væntanlegum kaupstaðarbúum og hinn ágæti listamaður Sæmundur Hólm prestur á Helgafelli gerði afstöðuuppdrátt af þessari skiptingu, sem talinn er elsti skipulagsuppdráttur á Íslandi. Minna varð þó úr kaupstaðnum en til stóð, ekki síst vegna þess að hin dönsku yfirvöld fylgdu ekki áformum sínum eftir í framkvæmd. 

  

 

Til skýringar verður þó að nefna að ártölin 1662 og 1897 voru ekki valin af handahófi.

 

Árið 1662 er þekkt ártal úr Íslandssögunni. Það ár fór Kópavogsfundurinn fram, en þar viðurkenndu Íslendingar formlega einveldi Danakonungs og yfirráð sem þó voru ekki ný af nálinni. Brynjólfur Sveinsson Skálholtsbiskup og Árni Oddsson lögmaður skrifuðu undir skuldbindinguna, tilneyddir með vopnavaldi að því er síðar hefur verið haldið fram.

 

Árið 1897 er þekkt ártal úr grundfirskri sögu, en það ár löggilti Kristján 9. Danakonungur (og Íslands) verslunarstað í Grafarnesi við Grundarfjörð, þegar verslunarstaðurinn var færður af Grundarkampi í Grafarnes. Árið 1997 héldu Grundfirðingar uppá verslunarafmælið undir yfirskriftinni 100 ár í Nesinu. Sama ár var opnaður veitingastaðurinn Kristján IX. (í höfuðið á umræddum konungi) og var hann rekinn í nokkur ár, þar sem nú er Kaffi 59.  

 

Næsta mánudag birtist önnur spurning hér á vefnum. Við þökkum þátttökuna.