Reykofninn-Grundarfirði ehf. (RG) er fyrirtæki sem vinnur verðmæti úr sæbjúgum. Sæbjúgu hafa ekki verið nýtt hér á landi, en eru þekkt matvara meðal margra Asíuþjóða. Fyrirtækið hefur lagt í mikla þróunar- og markaðsvinnu vegna vinnslu og sölu sæbjúgnanna, enda sannarlega í nýsköpun eins og það heitir.

 

Lárus Sverrisson og Ólafur Jónsson vinna við breytingar á húsnæði

RG var stofnað árið 2003 og eru helstu eigendur Reykofninn ehf. í Kópavogi, FISK Seafood hf. og Byggðastofnun. Fyrirtækið hefur aðsetur í Grundarfirði, í hluta af húsnæði FISK-Seafood hf. eins og Fiskiðjan heitir í dag.

 

Kári P. Ólafsson er framkvæmdastjóri RG og hann segir sölumál fyrir sæbjúgnaafurðirnar líta verulega vel út í dag, en vandkvæði hafi þó verið með hráefnisöflun.

 

Kári segir að erlendu kaupendurnir hafi ákveðnar óskir um framleiðsluaðferðir. Þessa dagana er verið að breyta húsnæði FISK til að koma þar fyrir gufukatli og meiri tækjabúnaði til að koma á móts við óskir kaupandans.

Kári gat þess að samvinna fyrirtækja hér í Grundarfirði virtist vera með besta móti því „Soffanías Cecilsson hf. gerði sér lítið fyrir og gaf okkur gufuketil einn ágætan og viljum við þakka kærlega fyrir hann“ sagði Kári.