Síðastliðinn mánudag kom saman „rýnihópur“ vegna væntanlegrar byggingar íþróttarmiðstöðvar í Grundarfirði.  Í rýnihópnum eru rúmlega 20 íbúar í Grundarfirði.  Tilgangur með vinnu rýnihópsins er að taka saman og samræma hugmyndir um, húsnæði, aðstöðu og búnað í nýrri íþróttarmiðstöð.  Hópurinn samanstendur af fulltrúum frá bæjarstjórn, almennum íbúum, skólunum og félögum í Grundarfirði.  Gætt var að því að fjölbreytni væri mikil í hópnum til þess að skoðanir sem flestra hópa í sveitarfélaginu ættu sér málsvara í honum.  Til aðstoðar hópnum voru fengnir arkitektar með mikla reynslu af hönnun íþróttamiðstöðva og ráðgjafaverkfræðingur sem sérhæfður er á þessu sviði.  Hópvinnunni stjórnaði Hrönn Pétursdóttir sem er mörgum að góðu kunn í Grundarfirði eftir að hún var verkefnisstjóri við undirbúning að stofnun Fjölbrautaskóla Snæfellinga.  Farið verður yfir hugmyndir rýnihópsins sem fram komu á fundinum síðastliðinn mánudag og upp úr þeim verður síðan til „forsögn“ eða „lýsing“ á fyrirhuguðu mannvirki.