Sögur og sagnalist eru elsta leið mannsins til að læra og miðla þekkingu og reynslu.  Það er því vel við hæfi að vinna sérstaklega með sagnalistina í skólastarfi, sem er orðið algengt víða erlendis og aðeins byrjað að ryðja sér til rúms hér á landi. 

 

Um þessar mundir er unnið að verkefni um sagnalist í 7. Bekk Grunnskólans, í umsjón Sigurborgar Kr. Hannesdóttur og í samstarfi við Sögumiðstöðina.  Umsjónarkennari bekkjarins er Auður Rafnsdóttir.    Sagnafólk vinnur með nemendum, segir þeim sögur og þau segja sjálf.  Einnig er sungið, trommað, leikið á hljóðfæri, sungið og dansað.  Það er líka hlustað, því góð saga þarf hlustun til að lifna við.  Síðast en ekki síst hafa nemendur hitt eldri borgara af Dvalarheimilinu Fellaskjóli, sem rifja upp ýmsar sögur og endurminningar fyrir yngri kynslóðina.  Á dögunum hittust kynslóðirnar í Sögumiðstöðinni, þar sem sýningar og munir voru notaðir til að rifja upp, miðla fróðleik og segja sögur.  Verkefnið er styrkt af Barnamenningarsjóði og lýkur því nú í maí.  Sem dæmi um viðfangsefnin má nefna að fjallað var um uppáhaldssögur nemendanna og kom í ljós að nokkur þeirra halda mikið upp á söguna af Axlar-Birni, úr Eyrbyggju.

Þess má geta að í ágúst næstkomandi verða haldin, á vegum Sögumiðstöðvar, tvö námskeið um sagnavinnu í starfi með börnum og unglingum.  Námskeiðin, sem styrkt  eru af Menningarráði Vesturlands, verða haldin á Snæfellsnesi og Akranesi.  Skoskt sagnafólk með mikla reynslu, mun leiðbeina á námskeiðunum.   

Á myndinni má sjá nemendur með „Sagnavef“.