Samæfing í frjálsum íþróttum á vegum UMSB, HSH og UDN var haldin í Borgarnesi föstudaginn 25 feb. síðastliðin fyrir 11 – 14 ára.  Þetta er liður í því að koma á fót úrvalshóp Vesturlands með krökkum frá þessum þrem félögum.  Stefnt er að því að hafa fleiri samæfingar og jafnvel að fara með þau í stutt keppnisferðalag í sumar.

Frá UMFG fóru 12 krakkar á aldrinum 11 – 13 ára og voru þau einu frá HSH sem mættu, Dalamenn hættu við á síðustu stundu vegna námsmaraþons í skólanum.  Þannig að það voru bara krakkar úr UMFG og UMSB sem voru að æfa en hópurinn taldi rúmlega 30. 

Byrjað var á að fara niður á völl og skokka tvo hringi í upphitun og síðan var haldið áfram að hita upp niður á stóra ganginum í íþróttahúsinu.  Eftir það var farið inn í sal og tekin tækniæfing þar sem var farið létt yfir nokkrar greinar.  Eftir það skelltu allir sér í sund í nokkrar mínútur og síðan brunað á Mótel Venus og borðuð pizza eins og hver gat í sig látið. 

Þetta tókst mjög vel og var Íris Grönfeldt héraðsþjálfari UMSB mjög ánægð með hvernig til tókst og vonar hún að þetta geti orðið vísir að einhverju meiru.

 

KH