Frétt á vef Skessuhorns 8. október 2009:

Sameiginleg æfing slökkviliða á Snæfellsnesi fór fram í Grundarfirði í síðustu viku. Að sögn Garðars Svanssonar varaslökkviliðsstjóra í Grundarfirði tóku 34 slökkviliðsmenn, frá Grundarfirði, Stykkishólmi og Snæfellsbæ þátt í æfingunni sem stóð í fjóra tíma og heppnaðist mjög vel. Garðar segir að leitast sé við að hafa eina sameiginlega æfingu á ári en einnig fáist liðin við stærri útköll þegar þau verða eins og t.d. í Grundarfirði í lok ágústsmánaðar.   „Ég held það hafi komið vel fram á þessari æfingu hvað við eigum öflug slökkvilið og vel tækjum búin,“ sagði Garðar. Á æfingunni var æfð reykköfun, slökkvistarf úr stiga og um borð í báti, en slökkviliðin fengu Hring SH til afnota í því skyni. Þá var einnig æfð björgun úr bíl, þar sem bíllinn var klipptur og nutu slökkviliðsmenn þar aðstoðar sjúkrafluningamanna.