Talningu lauk um ellefuleytið á kjörstað í Samkomuhúsinu í Grundarfirði. Á kjörskrá voru 635 en íbúar í Grundarfirði eru rúmlega 960.

Þátttaka í kosningunni var góð, 440 greiddu atkvæði bæði á kjörfundi og utan kjörfundar, sem er 69,3% kjörsókn.

Samþykkir sameiningu og sögðu já voru 63, eða 14,3% en 371 sögðu nei og höfnuðu sameiningu, eða 84,3%.

Auðir og ógildir seðlar voru 6, eða 1,4%.

Á kjörskrá voru sem fyrr segir 635 manns; 338 karlar og 297 konur.

Atkvæði greiddu 225 konur og 215 karlar.

Sameiningin var einnig felld í hinum sveitarfélögunum fjórum. Í Snæfellsbæ sögðu 79,4% nei, í Helgafellssveit sögðu tæp 76% kjósenda nei, í Stykkishólmsbæ sögðu 65% nei, en í Eyja- og Miklaholtshreppi var minnst andstaða við sameininguna en þar sögðu tæp 57% nei.

Á vef félagsmálaráðuneytisins er hægt að nálgast niðurstöður kosninganna í heild.