Þriðjudaginn 9. mars síðastliðinn hélt sameiningarnefndin á fund sveitarstjórnarmanna á Snæfellsnesi til að ræða framtíðarsýn sveitarfélaganna á svæðinu. Á Snæfellsnesi eru sex sveitarfélög; Kolbeinsstaðahreppur, Eyja- og Miklaholtshreppur, Snæfellsbær, Grundafjarðarbær, Helgafellssveit og Stykkishólmsbær með rúmlega fjögur þúsund íbúa alls.

 

Fundurinn var haldinn á Hótel Stykkishólmi og var ágætlega sóttur þrátt fyrir leiðindaveður, en fundarmenn voru alls 30 talsins. Umræður voru líflegar og skoðanir skiptar. Fram kom að sveitarfélögin hafa hafið grunnvinnu við að kanna kosti og galla þess að sameina öll sveitarfélögin á Snæfellsnesi í eitt öflugt sveitarfélag. Kolbeinsstaðahreppur, sem stendur innst á sunnanverðu nesinu, hefur reyndar hug á að kanna hvort hugur íbúanna stendur til þess að sameinast Borgarbyggð eða sveitarfélögunum á Snæfellsnesi.

 

Niðurstaða fundarins var að sveitarfélögin þyrftu að setja ákveðinn kraft í vinnu við athugun á kostum og göllum þess að sameina allt Snæfellsnesið í eitt sveitarfélag.

 

Frétt af heimasíðu félagsmálaráðuneytisins: http://www.felagsmalaraduneyti.is/vefir/efling